Nýverið kom upp umræða um tvö ung börn sem höfðu orðið fyrir hormónaáhrifum í tengslum við hormónauppbótarmeðferð mæðra þeirra sem notuðu estrogen í gelformi. Þegar gel eða sprey með virku innihaldsefni er sett á húð er mögulegt að smit geti orðið ef annar einstaklingur kemst í snertingu við það svæði sem borið var á. Smithættan er mest fyrsta klukkutíman eftir að gel/sprey er sett á húð en eftir tvær klukkustundir virðist hættan á smiti vera lítil sem engin milli fullorðinna einstaklinga. Húð barna er þynnri en fullorðinna og eru þau viðkvæmari fyrir smiti. Það sama á við um gæludýr og því mikilvægt að fara varlega ef börn eða dýr eru á heimilinu.
Estrogenuppbót er hægt að fá í mismunandi formi. Það er td hægt að fá estrogen plástra og einnig estrogen í töfluformi sem geta verið betri kostur í sumum tilfellum. Ef notað er gel eða sprey er ákjósanlegt að bera það á fótleggi að morgni dags í stað þess að bera það á sig að kvöldi, sérstaklega ef barnið sefur uppí rúmi hjá móður og passa að þvo sér vel um hendur eftir notkun. Það sama á við um notkun testogels.
Mikil vitundarvakning hefur orðið sl ár um breytingaskeið kvenna og vitneskjan um að einkenni geta komið fram mörgum árum áður en blæðingar stöðvast orðið til þess að konur eru meðvitaðri og leita sér meðferðar fyrr en áður. Auk þess eru konur að eignast börn seinna á lífsleiðinni og því eru fleiri konur með ung börn jafnvel komnar á hormónauppbótarmeðferð sem slær á einkenni þeirra, bætir svefn, almenna líðan og almenn lífsgæði. Mikilvægt er að konur sem fá hormón í gegnum húð séu upplýstar og meðvitaðar um hættuna á smiti til barna, fái réttar leiðbeiningar og gæti varkárni við notkun.
Hér má sjá fræðslumyndbönd um notkun hormónagels og plástra:
Comments