![](https://static.wixstatic.com/media/31bd09_d390338110a4484c8da4cec3e9eff6e5~mv2.png/v1/fill/w_980,h_654,al_c,q_90,usm_0.66_1.00_0.01,enc_auto/31bd09_d390338110a4484c8da4cec3e9eff6e5~mv2.png)
Breytingaskeiðið / tíðahvörf er náttúrulegt ferli sem allar konur í heiminum fara í gegnum á einhverjum tímapunkti í lífinu. Af öllum konum upplifa 25% þeirra mjög truflandi einkenni sem geta varað í 8-10 ár og stundum lengur. Samkvæmt rannsóknum upplifa 80% kvenna einhver einkenni (https://www.gynamedica.is/einkennalisti).
Erum við að sjúkdómsvæða breytingaskeiðið / tíðahvörf?
Sumir gætu sagt að með því að leggja of mikla áherslu á inngrip eins og t.d hormónameðferð / MHT erum við að gera náttúrulegt ferli að sjúkdómi. Á hinn bóginn vilja aðrir meina að konur eigi rétt á að fá meðferð ef þær eru að upplifa einkenni sem hafa truflandi áhrif á lífsgæði þeirra. Einkenni eins og til dæmis hita- og svitakóf, svefntruflanir, andleg vanlíðan, skapsveiflur, vöðva og liðverkir, einkenni frá þvag- og kynfærum og lítil kynlöngun eru allt einkenni sem geta haft veruleg áhrif á daglegt líf, lífsgæði, atvinnu og sambönd kvenna.
Þetta snýst ekki um að sjúkdómsvæða breytingaskeiðið heldur að konur geti tekið upplýsta ákvörðun út frá sinni líðan og heilsu.
Af hverju er hormónameðferð / MHT mikilvæg?
Í starfi okkar hjá GynaMEDICA hittum við daglega konur sem eru að upplifa það truflandi einkenni að þeim finnst þær hafa misst tökin á heilsunni. Þessu fylgir vanlíðan og sektarkennd. Konur grípa í óheilsusamlegan mat og kaffi til þess að fá skyndiorku og nota svo oft áfengi til þess að ná sér niður. Konur lýsa gjarnan algjöru orkuleysi sem getur komið þannig fram að þær draga sig í hlé félagslega og hafa ekki orku í að sinna hreyfingu eins og þær voru vanar að gera. Þetta getur orðið vítahringur sem er ekki ákjósanlegur þegar horft er til framtíðarheilsu.
Truflandi einkenni á breytingaskeiði geta gert konum erfiðara að sinna grunnstoðum sínum sem við vitum að skipta miklu máli fyrir almenna vellíðan og framtíðarheilsu.
Grunnstoðirnar okkar samkvæmt lífsstílslækningum / Lifestyle Medicine eru:
Andleg vellíðan
Félagsleg tengsl / heilbrigð sambönd
Svefn
Góð næring
Regluleg hreyfing
Að halda skaðlegum efnum í lágmarki (Tóbak, áfengi, eiturefni og of mikil skjánotkun)
Með réttri meðferð og stuðningi er hægt að auðvelda konum að sinna þessum mikilvægu þáttum, og getur hormónameðferð meðferð verið mjög hjálpleg og komið konum á réttu brautina hvað varðar lífsstílstengda þætti.
Hormónameðferð (MHT) er ekki lífsnauðsynleg meðferð og breytingaskeiðið sjálft krefst ekki læknisfræðilegrar meðferðar. Aftur á móti geta einkennin sem fylgja því haft svo truflandi áhrif á daglegt líf að þau þurfa meðhöndlun.
MHT ætti alltaf að vera fyrsta val sem meðferð við truflandi einkennum breytingaskeiðs / tíðahvarfa.
Eins og staðan er í dag er ekki farið að mæla með notkun MHT í fyrirbyggjandi skyni fyrir konur án einkenna, þrátt fyrir að ýmsar rannsóknir sýni fram á að MHT geti minnkað líkur á langvinnum sjúkdómum eins og t.d. beinþynningu, hjarta og æðasjúkdómum og sykursýki. Rannsóknum ber ekki saman þegar kemur að ávinningi MHT tengdum heilabilun og vitrænni færni.
Pistillinn er byggður á grein sem International Menopause Society birti í tilefni World Menopause Day 2024
Panay N, Ang SB, Cheshire R, Goldstein SR, Maki P, Nappi RE; International Menopause Society Board. Menopause and MHT in 2024: addressing the key controversies - an International Menopause Society White Paper. Climacteric. 2024 Oct;27(5):441-457. doi: 10.1080/13697137.2024.2394950. Epub 2024 Sep 13. PMID: 39268862.
Comments