Þyngdin segir ekki allt – líkamssamsetning og breytingaskeiðið
- Harpa Lind
- Jun 6
- 3 min read
Updated: Jun 8

Fyrir marga er vigtin eini mælikvarðinn á heilsu og þyngdarstjórnun. En þegar konur nálgast breytingaskeiðið og tímann eftir tíðahvörf dugar þessi mælikvarði skammt. Breytingarnar eiga sér stað dýpra í líkamanum sem vigtin nær ekki að sýna. Um ræðir breytingar á líkamssamsetningu, sem hafa bein áhrif á heilsu, líðan og áhættuna á því að þróa með sér langvinna sjúkdóma.
Hvað gerist í líkamanum á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf?
Á þessu tímabili minnkar framleiðsla estrogens, sem hefur áhrif á efnaskipti, vöðvamassa og fitudreifingu. Margar konur taka eftir því að þær bæta á sig um mittið, jafnvel þó þyngdin haldist stöðug. Þetta getur stafað af því að:
Vöðvamassi minnkar (sérstaklega ef styrktarþjálfun og næg próteininntaka eru ekki hluti af lífsstílnum).
Fitusöfnun eykst, sérstaklega á kviðsvæðinu.
Efnaskipti hægjast, sem getur haft áhrif á blóðsykurstjórnun og insúlínviðnám.
Þessar breytingar gerast oft hljóðlega, og vigtin ein og sér segir okkur ekki hvort við séum að missa vöðva og bæta á okkur fitu, eða hvort við séum að viðhalda heilsusamlegri líkamssamsetningu.
BMI: Of einfaldaður mælikvarði
BMI (líkamsþyngdarstuðull) er mikið notaður í heilbrigðiskerfinu, en hann hefur verulegar takmarkanir, sérstaklega þegar kemur að konum á miðjum aldri. BMI segir ekkert um hlutfall á milli vöðva og fitu, né hvar fitan safnast á líkamanum. Tvær konur með sama BMI geta haft gjörólíka líkamsbyggingu og heilsufarsáhættu.
Hvers vegna skiptir líkamssamsetning meira máli:
Það sem skiptir mestu máli fyrir framtíðarheilsuna okkar er hvernig þyngdin dreifist, hversu mikill vöðvamassinn er og hversu mikil fitan er og hvar hún er staðsett. Sérstaklega er kviðfita talin áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2 og bólgumyndun í líkamanum.
Líkamssamsetningarvigt/body composition scale:
Margir þekkja svokallaðar „body composition“ vigtir sem mæla hlutfall vöðva, fitu og vökva í líkamanum. Þessar vigtir geta verið gagnlegar til að fylgjast með breytingum yfir tíma, sérstaklega ef þær eru alltaf notaðar við svipuð skilyrði.
DXA skanni – nákvæm leið til að meta líkamssamsetningu:
DXA (Dual-energy X-ray Absorptiometry) skanninn er oftast þekktur sem mælitæki fyrir beinþéttni, en hann getur líka mælt nákvæmlega:
Vöðvamassa
Fitumagn
Dreifingu fitu á líkamanum (t.d. kviðfitu)
Hlutföll á milli líkamshluta
Þetta gerir konum kleift að fá raunverulega mynd af líkama sínum, ekki bara töluna á vigtinni. Með tímanum getur DXA hjálpað til við að fylgjast með árangri lífsstílsbreytinga, hvort styrktarþjálfun, breytt mataræði og almennt góður lífsstíll séu að skila sér í auknum vöðvamassa og minni kviðfitu, jafnvel þó þyngdin haldist svipuð.
Ný sýn á heilsu kvenna á miðjum aldri:
Það er tími til kominn að við horfum með nýjum augum á hvað heilsa og styrkur þýðir á miðjum aldri. Í stað þess að hengja okkur í tölu á vigtinni, skulum við spyrja okkur:
Er ég að viðhalda vöðvamassanum mínum?
Hvernig er blóðsykurinn minn?
Hvernig eru blóðfiturnar mínar?
Er kviðfita að aukast, eða minnka?
Er ég orkumikil, sef vel og í góðu jafnvægi ?
Hvernig Gynamedica getur stutt þig
Við hjá Gynamedica höfum mikinn áhuga á því að styðja konur á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf í því að ná tökum heilsunni. Við nálgumst þetta verkefni með heildrænni og einstaklingsmiðaðri nálgun, með það að markmiði að bæta efnaskiptaheilsu, styrk og vellíðan á þessum mikilvæga tímabili í lífi kvenna.
Við hjá Gynamedica viljum styðja konur í gegnum þetta tímabil
Við bjóðum upp á Heilsuhandleiðslu fyrir konur sem vilja:
gera varanlegar lífsstílsbreytingar sem leiða þær í átt að betri líðan og bættrar efnaskiptaheilsu.
kortleggja heilsutengda þætti og fá aðstoð við að setja raunhæf markmið út frá einstaklingsmiðuðum þörfum.
Höfundur: Harpa Lind Hilmarsdóttir, lífsstílshjúkrunarfræðingur (LMCA) og heilsumarkþjálfi
コメント