top of page

Aðrir meðferðarmöguleikar

Þrátt fyrir að hormónauppbótarmeðferð sé öflug leið til að takast á við breytingaskeiðseinkenni þá passar hún ekki endilega fyrir allar konur. Það geta verið ýmsar ástæður á bak við það, t.d heilsufarslegar eða að þú viljir fara aðrar leiðir.


Lífsstílsþættir eins og regluleg hreyfing, góð næring, og streitustjórnun geta bæði dregið úr einkennum á breytingaskeiði og virkað sem forvörn gegn því að þróa með sér langvinna sjúkdóma eins og sykursýki, hjartasjúkdóma og háþrýsting.⁠

Tíminn í kringum breytingaskeiðið er góður tími til þess að staldra við, líta yfir farinn veg og íhuga hvernig við viljum eldast. Fyrir margar konur gæti sú endurskoðun verið hvatning til þess að breyta um lífsstíl.⁠
Lyfjalaus meðferð er valmöguleiki fyrir þær sem vilja ekki eða geta ekki notað hormóna. Til eru ýmis úrræði sem geta hjálpað til við að draga úr einkennum breytingaskeiðs en slá ekki algjörlega á þau. ⁠


Lífsstílsbreytingar og lyfjalaus meðferð: ⁠

Þættir sem geta ýtt undir einkenni breytingaskeiðsins eru:

 • Sterkur matur⁠

 • Áfengi⁠

 • Reykingar⁠

 • Koffín⁠

 • Mikil streita


Bjargráð gegn hitakófum:

 • Aðlagið fatnað, klæðist nokkrum lögum af fatnaði og veljið náttúruleg efni sem anda vel.⁠

 • Rafmagnsviftur heima og í vinnunni.⁠

 • Passa að hitastig í svefnherberginu sé lágt, um 18 gráður, hægt er að notast við kælimottu eða gelmottu í rúminu. (Kælimottur hafa fengist t.d. í Costco og gelmottur í apóteki).⁠


Hugræn Atferlismeðferð er samtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni og getur þessi meðferð hjálpað við mildum einkennum.⁠

Hugleiðsla og núvitund hjálpar til við að draga úr streitu sem oft hefur neikvæð áhrif á líðan á breytingaskeiði.⁠

Phytoestogens sem finnst í matvælum úr jurtaríkinu, eins og soya, getur hjálpað við hitakófum.

Yoga, dáleiðsla og nálastungur hefur hjálpað sumum konum. ⁠


Bætiefni , ýmis bætiefni fyrir konur á breytingaskeiði fást í verslunum. Það eru ekki góðar rannsóknir á bak við þessar vörur, en það þýðir ekki endilega að þau virki ekki.


Önnur lyf:

Ákveðin lyfseðilsskyld lyf eru stundum notuð við einkennum breytingaskeiðsins ef kona vill ekki eða getur ekki notað hormónauppbótarmeðferð. ⁠

 • Þunglyndislyf / kvíðalyf (SSRI) í lágum skömmtum eru stundum notuð við hitakófum og nætursvita og hafa sýnt að þau virka ágætlega. ⁠

 • Gabapentin (taugaverkjalyf) virkar ágætlega á hitakóf og nætursvita en ekki á önnur einkenni breytingaskeiðs. ⁠

 • Ákveðin blóðþrýstingslyf, t.d. Clonidine, geta í sumum tilfellum bætt væg einkenni breytingaskeiðs.⁠

 • Beta blokkerar geta slegið á kvíðatengd einkenni eins og hjartsláttartruflanir. Þeir slá ekki á hitakóf. ⁠


Mikilvægt er að benda á að þessi lyf geta slegið á væg einkenni breytingaskeiðs og virka yfirleitt ekki til lengri tíma, auk þess sem sumum þeirra fylgja aðrar aukaverkanir. Þar fyrir utan veita þau ekki vörn gegn langvinnum sjúkdómum eins og beinþynningu, hjarta og æðasjúkdómum líkt og gögn benda til að hormónauppbótarmeðferð geri.


Mikilvægt er að hver kona taki upplýsta ákvörðun um hvort og þá hvaða meðferð hún vill þiggja, í samráði við sinn lækni eða annan heilbrigðisstarfsmann.1,346 views0 comments

Comments


bottom of page