Það getur verið gagnlegt að taka stöðuna
reglulega og meta hversu vel hormónauppbótarmeðferðin(HRT) er að virka fyrir þig. Góð leið til þess að halda utan um einkennin sín er að hlaða niður balance appinu sem er frítt. Þar er hægt að skrá og halda utan um einkennin sín. balance - Homepage (balance-menopause.com)
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að þú sért ennþá að upplifa einkenni breytingaskeiðsins þrátt fyrir að vera á hormónauppbótarmeðferð (HRT).
Rangur skammtur eða röng tegund af HRT getur verið ástæðan fyrir því að þú ert að upplifa einkenni.
Það er misjafnt á milli kvenna hvað gildin í blóðinu þurfa að vera til að létta einkennin.
Frásog meðferðar um húð segir okkur hversu vel ákveðið lyf kemst út í blóðrásina og hefur þau áhrif sem það á að hafa í líkamanum.
Rannsóknir hafa sýnt að frásog estrógens er misjafnt á milli staða í líkamanum. Húðin okkar er misjöfn þegar kemur að því hversu vel Estrogen frásogast og geta því sumar konur þurft hærri skammta en aðrar til að ná gildunum sínum upp.
Mögulegar ástæður fyrir lélegu frásogi:
Raki og hitastig húðarinnar getur haft áhrif á frásog.
Vandamál með plásturinn, stundum krumpast plásturinn á húðinni og jafnvel losnar. Ef svo er gæti verið gott að skipta yfir í aðra tegund af HRT.
Ef þú ert ennþá að upplifa einkenni á gelinu þá þarf mögulega að endurskoða skammtastærðina þína.
Mikilvægt er að leyfa gelinu að þorna vel í nokkrar mínútur áður en farið er í föt og bíða með sturtu/bað í 2-3 klst eftir að gelið hefur verið borið á.
Hafa skal í huga að mjög rakadræg íþróttaföt geta mögulega hindrað upptöku gelsins ef farið er fljótlega í þau eftir að gelið hefur verið borið á líkamann.
Ef borið er krem eða sólarvörn á líkamann er best að gera það u.þ.b 2 klst eftir að gelið var borið á.
Þegar kemur að HRT er ekki eitt sem passar fyrir alla. Það getur tekið tíma að finna út hvaða tegund og skammtur passar fyrir þig. Mikilvægt er að gera það undir leiðsögn heilsbrigðisstarfsmanns sem er vel að sér í hormónauppbótarmeðferð.
Með aldrinum þarf stundum að breyta skammtastærðinni.
Aðrir þættir sem geta haft mikil áhrif á breytingaskeiðseinkennin eru næring, hreyfing, streita og svefn og mikilvægt er að huga að öllum þeim þáttum meðfram hormónauppbótarmeðferðinni.
HRT dugar ekki ein og sér.
Sjá nánar: Fræðsla | GynaMEDICA.is
Comentários