top of page

Breytingaskeið og tíðahvörf
Allar konur ganga í gegnum tíðahvörf en það er þegar blæðingar stöðvast. Um er að ræða náttúrulegt ferli sem allir einstaklingar sem fæðast með eggjastokka ganga í gegnum á einhverjum tímapunkti. Það getur gerst af náttúrulegum orsökum þegar eggjastokkarnir hætta að framleiða egg og þar með stöðvast framleiðsla hormóna í eggjastokkunum eða ef eggjastokkarnir eru fjarlægðir eða eyðileggjast af öðrum ástæðum td við lyfja-eða geislameðferð td vegna krabbameins.


Tíðahvörf eru í raun afturvirk greining sem fylgir í kjölfar tímabils sem sem hefur staðið yfir í lengri tíma en samkvæmt skilgreiningu er kona komin í tíðahvörf þegar ár er liðið frá síðustu blæðingum. Meðalaldur við tíðahvörf eru um 51 ár og tíminn fram að því kallast breytingaskeið. Breytingaskeiði fylgja flöktandi hormónagildi sem geta staðið yfir í mörg ár. Ýmis sállíkamleg einkenni geta komið fram en þau geta verið óljós og því vangreind, ekki tekin alvarlega og oft ekki meðhöndluð sem skyldi. Einkenni eins og þreyta og orkuleysi, heilaþoka, hita og svitakóf geta haft áhrif á líf kvenna bæði innan og utan heimilis, á samskipti og atvinnuþátttöku. Það er því mikilvægt fyrir konurnar sjálfar, aðstandendur, vinnuveitendur og samfélagið allt að auka fræðslu og þekkingu um breytingaskeið kvenna og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að konur geti farið í gegnum þetta tímabil á sem bestan máta.


Það er algengur misskilningur að blæðinga stopp sé fyrsta einkenni breytingaskeiðs. Oftast er það alls ekki raunin heldur er blæðingastoppið sjálft eitt það síðasta sem gerist. Einkenni breytingaskeiðs geta komið fram allt að 7-10 árum áður en blæðingar hætta. Það þýðir að konur geta farið að finna fyrir einkennum þegar þær nálgast fertugsaldurinn eða komnar á fimmtugsaldur. Fyrstu einkenni breytingaskeiðs eru oft smávægileg breyting á tíðahringnum, hann styttist um nokkra daga eða blæðingar aukast eða minnka. Kona getur verið með einkenni breytingaskeiðs þó hún sé ennþá með reglulegar blæðingar. Stundum fara konur að finna fyrir versnandi fyrirtíðaspennu, fá mígreni og jafnvel fundið fyrir nætursvita, sérstaklega rétt fyrir blæðingar.


Helstu hormónin sem um ræðir eru estrogen (estradiol), progesterone og testosterone. Estrogen og progesterone vinna saman við stjórnun tíðahringsins. Estrógen gegnir mikilvægu hlutverki út um allan líkamann, m.a. hefur það áhrif á bein, andlega líðan, minni, húð, hár og fl. Í öllum okkar líffærakerfum er að finna frumur sem hafa hafa viðtaka fyrir þessum hormónum og hafa þau því víðtæk áhrif útum allan líkama. Líkaminn er vanur að hafa visst magn af þessum hormónum og þegar magn þeirra fer að minnka og verða sveiflukennt geta því komið fram hin ýmsu sállíkamlegu einkenni. Sumar konur finna mikið fyrir þessu tímabili en aðrar finna lítið fyrir því. Almennt er talað um að um 80% kvenna finni einhver einkenni.

Þó meðalaldur við tíðahvörf sé um 51 ár eru margar konur sem hætta mun fyrr á blæðingum. Ef tíðahvörf verða fyrir 45 ára er talað um snemmkomin tíðahvörf. Ef tíðahvörf verða fyrir 40 ára aldur er talað um ótímabæra vanstarfsemi eggjastokka. Mikilvægt er að greina þessi tilfelli svo að hægt sé að ræða meðferðarmöguleika. Ef eggjastokkar eru fjarlægðir með aðgerð eða eyðileggjast af öðrum orsökum, td við lyfja-eða geislameðferð vegna krabbameins, gengur konan í gegnum tíðahvörf í kjölfarið.

2,350 views0 comments

Comments


bottom of page