Endómetríósa og breytingaskeiðið
- Guðrún Björk Þorsteinsdóttir
- Mar 14
- 3 min read

Hvað er endómetríósa?
Endómetríósa er algengt kvenheilsuvandamál sem hefur áhrif á milljónir kvenna um allan heim. Orðið “endometriosis” kemur úr grísku orðunum „endos“ (inni), „metra“ (leg) og „-osis“ (sjúkdómur). Endómetríósa er sjúkdómur þar sem vefur, líkur þeim sem klæðir legið að innan, vex annars staðar í líkamanum. Þessi vefur getur vaxið á eggjastokkum, eggjaleiðurum, í kringum þarma og þvagblöðru og víðar. Talið er að ein af hverjum tíu konum séu með endómetríósu
Hormón, sérstaklega estrógen og prógesterón, hafa mikil áhrif á sjúkdóminn. Endómetríósa getur valdið miklum og sársaukafullum blæðingum, verkjum í kvið og grindarholi og í sumum tilfellum frjósemisvanda. Hinsvegar getur endómetríósa einnig verið einkennalaus. Fyrir þær sem finna fyrir einkennum eru til ýmsar meðferðir sem geta hjálpað til við að stjórna sjúkdómnum og draga úr einkennum og verkjum. Helstu læknismeðferðir við endómetríósu eru hormónameðferðir ýmiskonar og skurðagerð. Mismunandi er hversu mikla meðferð og hvaða meðferð þarf: sumar konur þurfa læknismeðferð eins og hormóna eða aðgerð en aðrar meðferðir eru líka mikilvægar svo sem sjúkraþjálfun, sálfræðimeðferð, stuðningur og ráðgjöf ýmiskonar. Lífstílsbreytingar geta haft jákvæð áhrif á þróun endómetríósu eins og með alla langvinna sjúkdóma.
Meðferð við endómetríósu
Meðferð getur verið árangursrík og bætt einkenni verulega. Meðferðin felur oftast í sér að takmarka eða stöðva framleiðslu estrógens, þar sem estrógen hvetur til vaxtar endóvefsins, bæði innan og utan legsins. Það er tilvist endóvefvefs utan legsins sem veldur óæskilegum einkennum.
Ýmsar læknismeðferðir eru í boði, svo sem getnaðarvarnarpilla, hormónalykkjan og verkjalyf. Það getur alveg tekið tíma að finna út hvað hentar hverri konu. Í alvarlegri tilfellum, eða þegar þessar meðferðir hafa ekki bætt einkennin, getur skurðaðgerð verið nauðsynleg. Markmið skurðaðgerðar er að fjarlægja eða eyðileggja endóvefinn utan legsins. Kviðspeglun, þar sem myndavél er sett í gegnum litla skurði á kviðnum, er algeng aðferð til að fjarlægja þennan vef. Í sumum tilfellum er einnig nauðsynlegt að fjarlægja legið eða eggjastokka. En mikilvægt er að átta sig á því að skurðaðgerð læknar ekki alltaf sjúkdóminn. Skurðaðgerð getur valdið skyndilegum tíðahvörfum ef eggjastokkar eru fjarlægðir, sem getur valdið alvarlegum og hamlandi einkennum tíðahvarfa. Rétt tegund og skammtur af hormónameðferð er mikilvæg í slíkum tilfellum til að bæta einkennin og vernda heilsu til framtíðar.
Hvað með HRT ? (HRT=hormonal replacement therapy/hormónauppbótarmeðferð)
Ef tíðahvörf hefjast snemma vegna skurðaðgerðar (fyrir 45 ára aldur) er mjög mikilvægt að fá hormón – sérstaklega estrógen – þar sem skortur á hormónum eða getnaðarvarnarpillu eykur hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, beinþynningu og sykursýki.
Estrógen er hægt að fá í töfluformi, plástri, geli eða úða. Öruggustu tegundirnar eru þær sem frásogast í gegnum húðina, þar sem þær auka ekki hættu á blóðtappa eða heilablóðfalli.
Fyrir meirihluta kvenna vega kostir hormónauppbótarmeðferðar þyngra en áhættan.
Áhættur HRT á versnun endómetríósu
Ef endómetríósa hefur verið meðhöndluð á árangursríkan hátt ættu ekki að vera nein vandamál með notkun HRT með tilliti til endurkomu einkenna. Hingað til hefur hinsvegar vantað hágæða rannsóknir á tengslum HRT og endómetríósu. Það er mögulegt að estrógen geti endurvakið endómetríósu í sumum tilvikum. Ef skurðaðgerð hefur fjarlægt allan vefinn ætti þetta þó ekki að gerast.
Tegundir HRT
Ef tíðahvörf hefjast á náttúrulegan hátt (en ekki vegna læknisfræðilegra ástæðna) ættir þú að fá samsetta HRT – sem inniheldur bæði estrógen og prógesterón (eða prógestógen).
Ef talið er að einhver endómetríósa sé enn til staðar eftir legnám, til dæmis í kringum þarma eða þvagblöðru, er yfirleitt ráðlagt að taka prógestógen með estrógeni til að draga úr hættu á að vefurinn verði örvaður af estrógeni. Öruggasta tegund prógestógens eða prógesteróns er „microniserað“ prógesterón, sem er „body-identical“ og unnið úr jurtum. Það er tekið inn daglega í töfluformi.
Konur sem hafa gengist undir legnám vegna endómetríósu geta oft tekið einungis estrógen hormónameðferð ef skurðlæknir þeirra er viss um að allur vefurinn hafi verið fjarlægður. Notkun estrógens HRT (án prógesteróns) eftir legnám eykur ekki hættu á brjóstakrabbameini, heldur getur dregið úr þeirri hættu, miðað við konur sem taka ekki HRT.
Hormónauppbótarmeðferð, þar sem HRT er notað til að draga úr aukaverkunum ákveðinna lyfja sem eru notuð við meðferð endómetríósu, hefur verið sýnt að dragi úr beinþynningu og dragi úr einkennum tíðahvarfa.
Endómetríósa getur þó stundum endurvaknað af sjálfu sér án estrógens. Mikilvægt er því að fylgjast með einkennum eins og grindarverkjum eða óeðlilegum blæðingum.
Óháð því hvort leg hefur verið fjarlægt eða ekki getur viðbótar testósterón með samsettri hormónameðferð bætt orku, skap, einbeitingu og kynhvöt.
Pistillinn er byggður á grein frá Newson Health:
Newson Health. Endometriosis and HRT. Balance by Newson Health. Tekið af vef mars 2025: https://www.balance-menopause.com/menopause-library/endometriosis-and-hrt/
Endometriosis UK: staðreyndir og tölur
Endómetríósa | Meðferðarsamantektir | BNF | NICE
コメント