Áhrifaríkasta meðferðin við einkennum breytingaskeiðs og tíðahvarfa er svokölluð hormónameðferð (menopause hormone treatment - hér eftir MHT). Áður en meðferð hefst er mikilvægt að hver kona kynni sér málið vel og taki upplýsta ákvörðun varðandi eigin meðferð.
H-in fimm:
Hver?
MHT er örugg og áhrifarík meðferð fyrir flestar konur sem glíma við truflandi einkenni breytingaskeiðs og ætti að vera fyrsta val þegar kemur að meðhöndlun einkenna á borð við svefntruflanir, lið-og vöðvaverki, skapsveiflur, andlega vanlíðan, hitakóf, þurrk í slímhúð, heilaþoku o.fl. Eins og staðan er í dag er ekki farið að mæla með notkun MHT í fyrirbyggjandi skyni fyrir konur án einkenna, þrátt fyrir að ýmsar rannsóknir sýni fram á að MHT geti minnkað líkur á langvinnum sjúkdómum eins og t.d. beinþynningu, hjarta og æðasjúkdómum og sykursýki. Rannsóknum ber ekki saman þegar kemur að ávinningi MHT tengt heilabilun og vitrænni færni.
Hvernig?
MHT snýst um að gefa hormón sem eggjastokkarnir eru hættir að framleiða. Um er að ræða hormónin estrógen, prógesterone og testosterone.
Estrógen er hægt að fá sem gel, plástur eða töflur. Öruggasta leiðin er að fá estrógen í gegnum húð í gelformi eða sem plástur en þannig fer estrógenið beint í gegnum húðina út í blóðrásina. Ef estrógen er tekið í töfluformi er það tekið upp í gegnum meltingarveginn og þaðan í gegnum lifrina þar sem það getur virkjað storkukerfið okkar og þar með er aðeins aukin áhætta á blóðtappa.
Prógesterone er gefið til að hamla vexti slímhúðar í leginu af völdum estrógens. Öruggasta leiðin til að taka prógesteróne er að taka svokallað mikroniserað prógesterón en það er hvað líkast því prógesteróni sem myndast í líkama okkar og hefur þ.a.l færri aukaverkanir, slær betur á svefntruflanir og kvíða og er öruggara hvað varðar hjarta og æðakerfið, efnaskipta heilsu, og hættu á brjóstakrabbameini. Hér á íslandi heitir það Utrogest/Utrogestan en það eru töflur sem eru teknar að kvöldi. Annar möguleiki er að fá Mirena hormónalykkju, hún dugar í 5 ár og virkar líka sem getnaðarvörn ef þörf er á því. Prógesterón er einnig hægt að fá sem tilbúin prógestín í töfluformi.
Testósterone hefur hingað til eingöngu verið álitið mikilvægt fyrir karlmenn en við vitum í dag að testósterone gegnir líka mikilvægu hlutverki í líkamsstarfsemi kvenna. Helsta ábending fyrir testosterone meðferð er skortur á kynlöngun þó margar konur upplifi einnig að testosterone hafi jákvæð áhrif á orku og drifkraft, og minnki heilaþoku.
Hvenær á að byrja?
Við ótímabæra eggjastokkabilun eða snemmkomin tíðahvörf (<45 ára) er mikilvægt að hefja meðferð sem fyrst og halda meðferð áfram a.m.k fram að meðalaldri náttúrulegra tíðahvarfa sem er við u.þ.b 52 ára aldur.
Framan af var litið svo á að ekki ætti að hefja MHT fyrr en við tíðahvörf, sem er ári eftir síðustu tíðablæðingar. Margar konur upplifa þó truflandi einkenni löngu áður en eggjastokkarnir hætta alveg að starfa. Allt að 10 árum fyrir tíðahvörf fer starfsemi eggjastokkanna dvínandi og breytist frá því sem var þegar kona var á hápunkti frjósemisskeiðs sem getur valdið breytingu á tíðahring og blæðingum, versnandi fyrirtíðaspennu, svefntruflunum og fleiri einkennum (https://www.gynamedica.is/einkennalisti) Hormónameðferð getur verið vandasöm á breytingaskeiði (perimenopause) vegna flöktandi framleiðslu kynhormóna frá eggjastokkum og krefst því stöðugs endurmats og aðlögunar út frá einkennum hverrar konu. Ef kona ákveður að hefja MHT er best að byrja innan 10 ára frá tíðahvörfum og jafnvel á breytingaskeiði, þ.e áður en blæðingar stöðvast.
Hversu lengi?
Í dag er ekkert hámark á tímalengd MHT. Svo lengi sem ávinningur er meiri en áhættur meðferðar á hver kona að geta valið hvort hún vill halda áfram eða hætta meðferð.
Hvers Vegna?
Tíðahvörf eru náttúrulegt ferli sem allar konur ganga í gegnum á einhverjum tímapunkti. Tíðahvörf út af fyrir sig krefjast ekki meðferðar. Upplifi kona hins vegna einkenni sem hafa áhrif á daglegt líf, hvort sem það eru áhrif á andlega eða líkamlega heilsu, kynheilsu, einkalíf eða starf, er rétt að kona fái réttar upplýsingar um þau meðferðarúrræði sem eru í boði og taki upplýsta ákvörðun fyrir sig. Breytingaskeiðið er góður tímapunktur til að skoða heilsuna heildrænt og bæta um leið grunnstoðirnar með jákvæðum lífsstílsbreytingum og þar með bæta heilsuna til framtíðar.
Pistillinn er byggður á grein sem International Menopause Society birti í tilefni World Menopause Day 2024
Panay N, Ang SB, Cheshire R, Goldstein SR, Maki P, Nappi RE; International Menopause Society Board. Menopause and MHT in 2024: addressing the key controversies - an International Menopause Society White Paper. Climacteric. 2024 Oct;27(5):441-457. doi: 10.1080/13697137.2024.2394950. Epub 2024 Sep 13. PMID: 39268862.
Comentários