Kynlíf gegnir mikilvægu hlutverki í lífi margra. Nánd og kynferðislegur unaður stuðlar að kröftugri losun taugaboðefnanna dopamins og oxytocins sem ýta undir almenna ánægju, hamingju, orku, er streitulosandi og eykur sjálfstraust.
Á breytingaskeiðinu þegar gildi estrogens og testósterons falla getur það haft bein áhrif á kynlöngun og á slímhúð kynfæranna.
Kynlöngun snýst ekki bara um hormón, heldur spila sálrænir og líkamlegir þættir einnig inn í.
Oft er mikið að gera í einkalífi og starfi hjá konum á þessum tímapunkti og spilar því almenn þreyta oft inn í löngun og orku til að stunda kynlíf.
Á breytingaskeiðinu upplifa konur oft pirring, minnkað sjálfstraust og þyngdaraukningu sem veldur því að þær vilja minni snertingu frá maka sínum. Þetta getur valdið togstreitu í sambandinu. Mörg sambandsslit verða á þessum tíma vegna þess að nútímasamfélag gerir miklar kröfur á fjölskyldur dags daglega og eiga hjón oft erfitt með að forgangsraða samverustundum til að rækta sambandið.
Mörgum konum finnst erfitt að ræða við makann sinn um það að þær séu búnar að missa áhuga á kynlífi eða að það sé óþægilegt að stunda kynlíf. Þetta getur verið einmanalegt ástand en staðreyndin er þó sú að mjög margar konur upplifa þessar tilfinningar. Það er mikilvægt að ræða við makann sinn um hvernig þér líður gagnvart kynlífi. Maki þinn getur upplifað höfnun og er því mikilvægt fyrir hann eða hana að skilja að breytingaskeiðið geti haft áhrif á kynlöngun og almenna líðan, t.d pirring, viðkvæmni og reiði. Það er mikilvægt fyrir þig og maka þinn að vera upplýst um að um hormónaójafnvægi sé að ræða og að ástæðan sé ekki sú að þú elskir hann/hana ekki lengur.
Á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf, þegar estrógen gildin lækka geta komið fram ýmis óþægindi frá leggöngum og þvagrás. Þessi einkenni geta versnað með tímanum og valda konum oft miklum óþægindum eftir tíðahvörf. Slímhúðir þynnast og verða þurrari og viðkvæmari. Einkenni geta verið t.d sviði, kláði, verkir við samfarir, roði og erting.
Þetta gerist einnig í slímhúðum í þvagrás og þvagblöðru og margar konur fara að finna fyrir óþægindum við þvaglát, tíðum þvaglátum og jafnvel þvagleka og verða móttækilegri fyrir þvagfærasýkingum. Konur geta farið að forðast kynlíf af því að þær eru hræddar um að fá þvagfærasýkingu. Staðbundin estrógenmeðferð er mjög áhrifarík við slímhúðarþurrki í leggöngum og þvagrásarkerfi.
Ekki vera feimin við að ræða þessi mál við lækninn þinn eða hjúkrunarfræðing, það er hjálp að fá.
Nánari upplýsingar um leggangaþurrk og þvagfæraeinkenni finnur þú hér
Comments