top of page

Lífsstílsvísindi og breytingaskeiði


18. október – Alþjóðlegi dagur breytingaskeiðsins


ree

Þann 18. október er haldið upp á alþjóðlegan dag breytingaskeiðsins. Alþjóðlegu breytingaskeiðssamtökin (International Menopause Society, IMS) velja á hverju ári þema sem endurspeglar nýjustu vísindalegu áherslur þegar kemur að heilsu kvenna á miðjum aldri.


Árið 2025 er yfirskriftin: “Lifestyle medicine in menopausal health.”

Þetta þýðir að í ár beinist alþjóðleg umræðan að lífsstílsvísindum og hvernig þau geta gegnt lykilhlutverki í að bæta heilsu, líðan og framtíðarheilsu kvenna á miðjum aldri.

Markmið lífsstílsvísinda er að viðhalda sem bestri andlegri og líkamlegri heilsu, koma í veg fyrir sjúkdóma, og jafnvel snúa við langvinnum sjúkdómum á öllum æviskeiðum, með því að hafa áhrif á undirliggjandi lífeðlisfræðilegar orsakir þeirra. 


Sex stoðir lífsstílsvísinda:

Lífsstílsvísindi (Lifestyle Medicine) byggja á sex stoðum sem saman mynda grunninn að heildrænni heilsu og vellíðan:


  • Næring: trefja- og próteinrík fæða sem heldur blóðsykri í jafnvægi, nærir þarmaflóruna og dregur úr bólgum.


  • Hreyfing: regluleg líkamsrækt með áherslu á bæði styrktarþjálfun og þol til að styrkja bein, hjarta og til að auka vöðvamassa.


  • Svefn: endurnærandi svefn og góð svefnrútína sem styður við hormónajafnvægi og andlega heilsu.


  • Andleg líðan og streitustjórnun: daglegar leiðir til að róa taugakerfið, til dæmis öndun, hugleiðsla eða útivist.


  • Minnka eða forðast skaðleg efni: að forðast tóbak, áfengi og unnin matvæli sem trufla hormónajafnvægi og efnaskipti.


  • Félagsleg tengsl: jákvæð samskipti og félagslegur stuðningur hafa verndandi áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu.



Þessar stoðir mynda kjarnann í þeirri nálgun sem IMS leggur áherslu á í ár og sýna hvernig vísindalega studdar lífsstílsbreytingar geta orðið lykillinn að betri heilsu og vellíðan á miðjum aldri.


Máttur lífsstílsvísinda

Yfirskrift dagsins byggir á nýrri vísindagrein sem birtist í tímaritinu Climacteric í október 2025 (Anekwe o.fl.). Í greininni er yfirlit yfir fjölmargar rannsóknir sem sýna að lífsstílsbreytingar eins og bætt næring, regluleg hreyfing, góður svefn og streitustjórnun geta dregið úr einkennum breytingaskeiðsins og bætt líðan kvenna.Rannsóknin dregur sérstaklega fram að lífsstíllinn sé ekki viðbót við aðra meðferð, heldur grunnurinn að góðri heilsu.


Þegar konur taka markviss skref í átt að jafnvægi í grunnstoðum lífsstílsvísinda styrkja þær bæði líkama og sál og leggja grunn að betri framtíðarheilsu.


Samspil hormónameðferðar og lífsstíls

Í greininni er jafnframt lögð áhersla á að hormónameðferð geti verið mikilvægur stuðningur þegar einkenni trufla svefn, orku eða daglegt líf.Þegar líkaminn fær þann stuðning sem hann þarf til að komast í jafnvægi getur það auðveldað konum að taka upp og viðhalda heilbrigðum lífsstíl.


Samantektargreinin dregur einnig fram að hormónameðferð geti haft verndandi áhrif þegar hún er notuð samhliða heilbrigðum lífsstíl.Rannsóknir sýna til dæmis að konur sem bættu við estrógenmeðferð í gegnum húð samhliða styrktarþjálfun sýndu marktækar bætingar í efnaskiptaheilsu, svo sem í blóðfitumælingum og langtímablóðsykri miðað við þær sem stunduðu æfingar án hormónameðferðar.


Sömuleiðis hefur komið í ljós að samsetning hormónameðferðar og reglulegrar hreyfingar bætir vöðvastyrk, líkamssamsetningu og þol, sérstaklega hjá konum sem áður höfðu verið lítið virkar. Langtímarannsóknir benda einnig til þess að hormónameðferð, hvort sem hún er í formi plástra eða í töfluformi, geti hjálpað til við að viðhalda teygjanleika slagæða og þannig stutt við hjarta- og æðakerfið þegar hún er notuð samhliða reglulegri þolþjálfun.


Greinin bendir þó réttilega á að niðurstöður um samvirk áhrif hormónameðferðar og hreyfingar séu ekki einhlítar og þörf sé á frekari rannsóknum.Heildarniðurstaðan er engu að síður skýr:

Hormónameðferð getur haft verndandi áhrif á efnaskipti, vöðvamassa og hjarta- og æðakerfi – sérstaklega þegar hún er hluti af heildrænni lífsstílsnálgun sem styður við jafnvægi og vellíðan kvenna á miðjum aldri.


Grein eftir Hörpu Lind Hilmarsdóttur, lífsstílshjúkrunarfræðing hjá GynaMEDICA



 
 
 

Comments


bottom of page