Mars - mánuður tileinkaður vitundarvakningu um eggjastokkakrabbamein
- Harpa Lind
- Mar 29
- 2 min read

Mars er alþjóðlegur mánuður tileinkaður vitundarvakningu um eggjastokkakrabbamein (Ovarian Cancer Awareness Month). Af því tilefni viljum við hjá GynaMEDICA fræða konur um einkennin þar sem þau geta verið ódæmigerð og oft erfitt að greina. Orsakir eggjastokkakrabbameins er í flestum tilfellum óþekkt, en vitað er um ákveðna þætti sem ýmist geta aukið eða minnkað líkurnar á að fá sjúkdóminn: Á hverju ári greinast um 7.500 konur í Bretlandi og u.þ.b 25 konur á Íslandi með sjúkdóminn, oft á síðari stigum þegar meðferð er flóknari.
Áhrifaþættir:
Allar konur sem hafa eggjastokka eða eggjaleiðara geta fengið eggjastokkakrabbamein.
Áhættan eykst með aldri og eftirfarandi þættir skipta máli:
Fjöldi egglosa á lífsleiðinni: þættir sem draga úr tíðni egglosa eins og meðganga, brjóstagjöf og notkun getnaðarvarnarpillu minnka líkurnar á eggjastokkakrabbameini
Fjölskyldusaga: Erfðabreytingar í BRCA1/BRCA2 genum (breast cancer antigen). Stökkbreytingar í þessum genum geta valdið því að þau starfa ekki eðlilega og líkaminn framleiðir ekki eðlileg viðgerðarprótein, Þetta veldur minni vörn gegn æxlismyndun heldur en í genum án stökkbreytinga.
Reykingar auka líkurnar á eggjastokkakrabbameini
Þættir sem geta minnkað áhættuna eru m.a. notkun getnaðarvarnarpillu, brjóstagjöf og meðganga.
Margt bendir til að notkun getnaðarvarnarpillu sem dregur úr tíðni egglosa verndi gegn tíðni eggjastokkakrabbameins. En hafa verður í huga að pillan getur einnig haft aukaverkanir, þannig að það þarf að meta kosti og galla í hverju tilfelli fyrir sig.
Einkenni sem vert er að taka alvarlega:
Vegna þess hve einkenni eru ódæmigerð, er mikilvægt að veita þeim athygli. Hafðu samband við lækni ef einhver eftirtalinna einkenna varir lengur en þrjár vikur:
Vaxandi þensla á kvið
Þrýstingur, verkir eða breytingar á hægðum
Þvagteppa eða tíð þvaglát
Þyngdartap, lystarleysi eða máttleysi
Blæðingar eftir tíðahvörf
Greining og meðferð
Greining byggist á kvenskoðun, ómskoðun og blóðprufum, en staðfesting fæst með vefjasýni. Meðferð felur oft í sér skurðaðgerð og lyfjameðferð, en stöðug framþróun á sér stað í lyfjameðferð gegn eggjastokkakrabbameini
Þekking getur bjargað lífi
Í mars hvetjum við alla til að taka þátt í vitundarvakningu, miðla fræðslu og hvetja konur til að þekkja líkama sinn og leita sér aðstoðar ef einkenni koma fram. Með snemmgreiningu og öflugri meðferð eru horfur betri.
Heimildir:
Krabbameinsfélag Íslands https://www.krabb.is/krabbamein/tegundir-krabbameina/eggjastokkakrabbamein
Target Ovarian Cancer, https://targetovariancancer.org.uk/
Cancer Research UK, https://www.cancerresearchuk.org/
Comments