Járnskortsblóðleysi (e. iron deficiency anemia) er skortur á járni í blóðinu sem getur verið með eða án skorts á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin eru mikilvægur þáttur í flutningi súrefnis til líffæra. Járnskortur getur haft mikil áhrif á orku, vitræna starfsemi og almenna heilsu. Konur á miðjum aldri, sérstaklega þær sem upplifa miklar tíðablæðingar á breytingaskeiði, ættu að vera meðvitaðar um járnmagn sitt og upptöku.
Af hverju eru konur á miðjum aldri í áhættu fyrir járnskorti?
Breytingaskeiðið getur haft veruleg áhrif á bæði blóðtap og hvernig líkaminn nýtir og frásogar járn. Hormónasveiflur geta leitt til aukinna eða langvarandi tíðablæðinga, sem getur valdið járnskorti og jafnvel blóðleysi. Jafnvel eftir tíðahvörf geta sumar konur enn glímt við lágt járnmagn vegna mataræðis, lélegrar upptöku eða undirliggjandi sjúkdóma.
Blæðingar kvenna eru algengasta orsök járnskorts hjá konum á barneignaraldri. Venjulega á þetta við um konur sem hafa miklar blæðingar þannig að blóðtapið er verulegt og líkaminn nær ekki að bæta sér þetta tap upp án aðstoðar. Á breytingaskeiði geta sveiflukennd hormón leitt til aukinna eða langvarandi tíðablæðinga, sem eykur hættu á járnskorti og blóðleysi.
Það magn sem konur tapa á blæðingum skiptir miklu máli og er að meðaltali sem svarar 0,7 mg á sólarhring. Sumar konur tapa þó mun meiru eða allt að 5 sinnum þessu magni og getur það auðveldlega leitt af sér járnskort. Á Vesturlöndum er talið að allt að 25% kvenna á barneignaaldri skorti járn.
Ef um miklar blæðingar er að ræða þá er mikilvægt að mæta þeim vanda og finna leiðir fyrir konur til að stöðva/minnka blæðingar. Það er grunnurinn í því að þær meðferðir sem gefnar eru við járnskorti séu árangursríkar.
Aðrar ástæður fyrir járnskorti geta verið:
Efnaskiptaaðgerð
Blæðing frá meltingarvegi
Járnsnautt fæði
Einkenni járnskorts
Þreyta og máttleysi
Svimi eða yfirliðstilfinning
Mæði
Föl húð
Viðkvæmar neglur og hárlos
Heilaþoka og einbeitingarerfiðleikar
Fótaóeirð eða tíðir höfuðverkir
Hjartsláttarónot
Ef járnskortur er ekki meðhöndlaður getur hann haft veruleg áhrif á lífsgæði, þannig að mikilvægt er að greina hann snemma og bregðast við.
Greining
Járnskortur er greindur með blóðprufum þar sem helstu blóðgildi eru mæld. Ef járnskortur greinist í blóðprufum og orsökin eru ekki augljós þá þarf læknir að leita skýringa á járnskortinum með frekari rannsóknum.
Hvernig á að viðhalda heilbrigðu járnmagn
Hægt er að styðja við járnmagn líkamans með hollu mataræði og lífsstíl. Ef um miklar blæðingar er að ræða hjá konum þá er mikilvægt að mæta þeim vanda og finna leiðir fyrir konur til að stöðva/minnka blæðingar.
Ef járnskortur er vægur þá er oft mælt með:
Að taka inn járn á fastandi maga í formi töflu, mixtúru eða spreyi sem getur hjálpað til við að halda járnbúskapnum innan eðlilegra marka og komið í veg fyrir járnskortsblóðleysi
Mikilvægt er að taka C-vítamín samhliða, þar sem það getur hjálpað til við upptöku járnsins
Gott er að láta eina klukkustund líða á milli járninntöku og annarrar neyslu matar.
Borða járnríka fæðu (forðast mjólkurvörur á sama tíma og járn er tekið)
Ef járnskortur er mikill, endurtekinn eða upptaka járns í meltingarveginum er takmörkuð, t.d. vegna sjúkdóma og járn í töfluformi hefur ekki skilað nógu góðum árangri er oft mælt með:
Járngjöf í æð
Blóðgjöf í æð
Læknir skrifar upp á lyfið, metur hve stóran skammt og hve oft þarf að fá járngjöf í æð. Járngjöf er gerð á heilsugæslu undir eftirliti hjúkrunarfræðings en blóðgjöf er öllu jöfnu framkvæmd innan spítalanna þegar önnur úrræði hafa ekki skilað nægilega góðum árangri.
Viðmiðunargildi járns í blóði
10-32 µmól/l
Viðmiðunargildi hemóglómíns í blóði
118-152 g/L hjá konum
Viðmiðunargildi ferritíns í blóði
15-150 µg/l
Ef þú ert kona með miklar blæðingar hvað er mikilvægt:
Fyrst og fremst að skoða hvernig hægt sé að minnka eða stöðva þessar miklu blæðingar sem eru að valda járnskorti. Því næst að neyta fjölbreyttrar fæðu úr öllum fæðuflokkum og auka neyslu á þeim járnríku. Ef það dugar ekki til getur verið nauðsyn að bæta við járntöflum. Mikilvægt er að nægt C vítamín sé í fæðunni til að líkaminn geti nýtt járnið.
Dæmi um mat sem er ríkur af járni er:
Dökkgrænt grænmeti til dæmis spínat (hrátt)
Baunir (soðnar nýrnabaunir)
Hnetur og fræ (hampfræ, hörfræ)
Rautt kjöt
Þurrkaðar apríkósur
Sveskjur og rúsínur
Innmatur, s.s. lifur og slátur
Lifrarkæfa
Ýmis járnbætt matvæli ( iron fortified t.d Cheerios)
Suðusúkkulaði
Dæmi um mat sem er ríkur af C vítamíni
Sítrusávextir
Kiwi
Ber (sólber, jarðaber og rifsber)
Kartöflur
Blómkál
Kaffi, te og mjólkurvörur er rétt að nota í hófi þar sem þær geta dregið úr upptöku járns.
Gott getur verið að fá aðstoð næringarfræðings ef illa gengur að ná tökum á járnríkri fæðu. Með því að borða járnríkan mat, hámarka frásog og leita sér læknisfræðilegrar ráðgjafar þegar þörf er á, geta konur viðhaldið heilbrigðu járnmagni og bætt lífsgæði sín á breytingaskeiði og eftir það.
Heilsan þín er þess virði!
Comments