top of page

Tengsl hjartaheilsu og kvenheilsusögu


Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum. Ætla má að 1 af hverjum 3 dauðsföllum á ári hverju sé af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Sumar konur eru í meiri hættu á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir hafa sýnt okkur að með fræðslu og forvörnum sem hvetja til heilbrigðari lífstíls getum við minnkað líkurnar og jafnvel komið í veg fyrir að konur þrói með sér hjarta- og æðasjúkdóma.


Konur ganga í gegnum ákveðin lífskeið sem geta haft áhrif á áhættu þeirra til að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma.


Hjarta- og æðasjúkdómar geta gert vart við sig hjá konum á öllum aldri. Konur ganga í gegnum ákveðin lífskeið sem geta haft áhrif á áhættu þeirra til að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma, eins og til dæmis meðganga og breytingaskeið/tíðahvörf.

Konur þekkja vel að vera undir streitu og miklu álagi. Það á sérstaklega við á tímanum í kringum breytingaskeiðið. Þessi hópur kvenna er gjarnan með marga bolta á lofti í einu. Þær eru oft að sinna ábyrgðarmiklu starfi, með börn og unglinga heima, aldraða foreldra sem oft treysta mikið á þeirra aðstoð og jafnvel orðnar ömmur líka. Streita getur í sjálfu sér aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum.


Þegar kemur að forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum er það heildræn nálgun sem skiptir máli, þar sem hugað er að andlegri og líkamlegri heilsu.


Tengslin á milli kvenheilsusögu og hjarta- og æðasjúkdóma:

Blæðingarsaga: Ef konur byrja mjög ungar á blæðingum, hafa sögu um blæðingarstopp eða óreglulegar blæðingar eins og til dæmis PCOS geta líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum aukist.

Vandamál/fylgikvillar á meðgöngu: Háþrýstingur, meðgöngusykursýki og meðgöngueitrun geta aukið líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum í framtíðinni.

Breytingaskeiðið/tíðahvörf: Þær konur sem fara í tíðahvörf fyrir 45 ára aldur eru í aukinni hættu á að þróa með sér kransæðasjúkdóma.

Estrogen, sem er hormón sem heldur æðunum mjúkum og sveigjanlegum, fer dvínandi þegar konur nálgast breytingaskeiðið. Á sama tíma og Estrógenið minnkar í líkamanum getur kólesterólið byrjað að safnast fyrir inni í æðunum sem getur aukið líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum. Þó að það séu margar rannsóknir sem benda til þess að Estrogen hafi jákvæð áhrif á æðakerfið, þá þurfum við fleiri rannsóknir.

Hita- og svitakóf eru algeng einkenni á breytingaskeiðinu og í kringum tíðahvörf og geta staðið yfir í allt að 10 ár. Þessi einkenni hafa verið tengd við háþrýsting og auknar líkur á hjarta og æðasjúkdómum. Það er því mikilvægt að meðhöndla einkenni eins og hita- og svitakóf.

Svefntruflanir og þunglyndi: rannsóknir hafa sýnt fram auknar líkur á hjarta og æðasjúkdómum þegar þunglyndi og/eða svefnvandi er til staðar. Konur á breytingaskeiði upplifa oft skertan svefn og breytingu á andlegri líðan.

Krabbameinsmeðferð: Konur sem hafa fengið meðferð við brjóstakrabbameini geta verið í aukinni hættu á að fá hjarta og æðasjúkdóma út af áhrifum meðferðarinnar.


Heimildir:


707 views1 comment

Recent Posts

See All
bottom of page