top of page

Næring á Breytingaskeiðinu

Matur er grundvöllur líkamlegrar og andlegrar heilsu. Góð næring styður okkur í amstri dagsins, hjálpar okkur að hugsa skýrt og getur fyrirbyggt sjúkdóma. Gríðarlega margar rannsóknir styðja það að góð næring stuðlar að bættri heilsu. Það sem við borðum skiptir máli.


Á tímanum í kringum breytingaskeiðið skiptir lífsstíll miklu máli og er næring þar stór hlekkur. Það getur verið gott fyrir konur að staldra við og endurskoða mataræðið á þessum tíma. Einnig er gott að velta fyrir sér hvort maturinn sem við borðum dags daglega veiti okkur góða orku, jafnvægi og vellíðan eða hvort hann geri mögulega hið andstæða.


Breytingaskeiðið er mikill aðlögunartími fyrir líkamann og þess vegna er mikilvægt að huga að góðri næringu sem styður okkur í gegnum þetta ferli. Markmið með góðri næringu á breytingaskeiðinu ættu að snúast um að styðja við hormónastarfsemina, bæta andlega líðan, styrkja beinin, minnka mittismál ef þörf er á og draga úr bólgum í líkamanum. Ef ætlunin er að breyta mataræði er gott að byrja hægt og rólega og leyfa líkamanum að aðlagast. Ef við förum rólega af stað eru meiri líkur á að nýjar venjur verði hluti af lífsstílnum til frambúðar. Leggjum frekar áherslu á að bæta við heilsusamlegum mat en að setja mat á bannlista. Eftir því sem við bætum inn meira af hollum mat er minna pláss fyrir það sem gagnast okkur síður.


Miðjarðarhafsmataræði hefur mikið verið rannsakað og er það talið gott fyrir alla og þá sérstaklega fyrir konur á breytingaskeiði. Mataræðið hefur bólguminnkandi áhrif á líkamann, inniheldur hreina óunna fæðu, er trefjaríkt og sykurlítið. Uppistaðan í því matarræði er mikið grænmeti, ávextir, belgjurtir (linsubaunir, kjúklingabaunir og fleiri tegundir af baunum), kornvörur, ólífuolía, hnetur, fræ, kryddjurtir, egg, fiskur, skelfiskur, hreinar mjólkurvörur og kjöt í hófi. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á minni líkur á hjartasjúkdómum, heilablóðfalli, þunglyndi, sykursýki týpu 2, offitu, elliglöpum og ákveðnum tegundum af krabbameini þegar Miðjarðarhafsmataræðis er neytt.


Þegar talað er um mataræði er nauðsynlegt að minnast á þarmaflóruna. Góð þarmaflóra er okkur lífsnauðsynleg og hefur hún bein áhrif á allan líkamann, meðal annars á heilann, húðina, ónæmiskerfið, hormónakerfið og efnaskiptin. Trefjar eru lykilatriði þegar kemur að góðri þarmaflóru. Trefjar finnum við í mat úr jurtaríkinu, t.d. í grænmeti, ávöxtum, heilkornavörum, baunum, hnetum, fræjum og kryddjurtum.


Borðum regnbogann!


1,688 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page