top of page

Fyrirtíðaspenna


Fyrirtíðaspenna eða PMS (premenstrual syndrome)


PMS er það kallað þegar konur fá reglulega ákveðin einkenni fyrir blæðingar sem svo hverfa á fyrstu dögum blæðinga. Flestar konur kannast við fyrirtíðaspennu í einhverjum mæli á einhverju tímabili í lífinu. Fyrir sumar þá hefur þetta mikil áhrif á þeirra lífsgæði alveg frá unglingsaldri til tíðahvarfa. Einkenni byrja í miðjum tíðahring (um og eftir egglos) og vara fram að blæðingum og eru stundum fyrstu dagana á meðan blæðingar eru.


Algeng einkenni fyrirtíðaspennu eru:

Slökun
  • skapsveiflur

  • pirringur

  • kvíði

  • þreyta

  • erfiðleikar með svefn

  • depurð

  • höfuðverkur

  • brjóstaspenna

  • uppþemba

  • breyting á matarlyst.


Minnihluti kvenna upplifir svokalla sjúklega fyrirtíðaspennu ( PMDD; premenstrual dysphoric disorder ). Eru þá framagrein einkenni alvarlegri og hafa meiri hamlandi áhrif á daglegt líf. Það má flokka PMS og PMDD bæði sem geðröskun og/eða hormónaröskun. Flokkun og greiningarskilgreining á þessu vandmáli er mismunandi milli landa og samtaka.

Dæmi um fleiri einkenni PMDD eru:

  • reiði

  • kvíðaköst

  • svefnleysi

  • vöðva og liðverkir

  • þunglyndi

  • sjálfsvígshugsanir,

Hver er ástæðan fyrir PMS ?

Engin veit alveg svarið við þessari spurningu en svo virðist vera að þær konur sem eru með PMDD séu næmari fyrir þeim hormónabreytingum sem eiga sér stað á þessum tíma í tíðahringnum. PMS hefur einnig verið tengt við mismunandi taugaboðefni í blóðinu, sem dæmi: serotonin og gamma-aminobutyric acid ( GABA ).

Hvernig er PMS eða PMDD greint ?

Það er engin sérstök blóðrannsókn eða líkamsskoðun sem getur greint PMS. Best er að skrifa niður í dagbók einkenni og blæðingar í minnst 2 mánuði til að sjá hvort þar sé að finna mynstur sem passar við PMS. Ákveðnir kvillar geta svo verið með svipuð einkenni og PMS eins og t.d. síþreyta, skjaldkirtils sjúkdómar, þunglyndi, kvíði ofl.


Ráðleggingar fyrir einstaklinga sem þjást af PMS eru:

  • Regluleg hreyfingu ( þarf ekki að vera meira en göngutúr )

  • Hollt mataræði, það er magnað hvað meltingarkerfið getur haft áhrif á líðan.

  • 7-8 tíma reglulegur svefn

  • Vera meðvituð um streitu og reyna að takmarka slíkt á þessum tíma sé það hægt. Sumum hentar joga eða hugleiðsla.

  • Nota verkjalyf (bólgueyðandi) ef þarf og hafa í huga að stundum er auðveldara að fyrirbyggja verki en að tækla þá þegar þeir eru orðnir óbærilegir.

  • Halda dagbók til að kortleggja einkenni í 2-3 mánuði til að takast betur á við einkennin þegar þau koma sem og að greina vandamálið. Til eru nokkur öpp til þess, t.d.: https://mevpmdd.com/

  • Sannanir fyrir gagnsemi bætiefna er takmörkuð og ætti að ráðfæra sig við lækni áður en slíkt er prufað. Minnst hefur verið á B1 og B6 vítamin, Magnesium, D-vítamín og Calcium og Agnus casturs.

  • Forðast skal reykingar og óhóflega áfengisdrykkju

Meðferð:

Ef lífstílsbreytingar hafa ekki skilað árangri er gott að ræða við heimilislækni, kvensjúkdómalækni, sálfræðing eða geðlækni til að fá frekari aðstoð.

Algengt er að það sem hentar einni konu hentar ekki endilega þeirri næstu og stundum þarf að prufa sig áfram til að finna hvað virkar.

  • Þunglyndislyf eru oft notuð og hafa sannað gildi sitt í meðferð við PMS og PMDD. Þunglyndislyf sem hafa áhrif á serotonin eru mest notuð og kallast oft SSRI ( selective serotonin re-uptake inhibitors ). Eru þau ýmist notuð alla daga eða kaflaskipt og þá bara á þessum vikum frá egglosi og að blæðingum.

  • HAM - hugræn atferlismeðferð hjálpar oft konum að takast á við einkenni sín.

  • Hormónastýring hefur verið notuð með ágætum árangri og sem dæmi má nefna:

    • Samsetta getnaðarvarnapillur (COC: combined oral contraceptive) sem innihalda bæði progesteron ( oft notaðar pillur sem innihalda drospirenone ) og estrogen. Þar sem hver kona er einstök þá batna sumar konur á þessari meðferð á meðan sumar versna. Oft virka getnaðavarnir sem stoppa egglos betur en aðrar.

    • Estrogen plástrar eða gel með eða án progesterons (í töfluformi, stílum eða sem lykkja). Athuga skal að þessi hormónameðferð er ekki getnaðarvörn.

    • Danazol: má nota við erfið tilfelli til að minnka brjóstaspennu. Fara þarf varlega sökum mögulegra aukaverkana og er þetta ekki mikið notað.

    • GnRH: gonadotropin-releasing hormone analogues má íhuga að nota fyrir þær konur sem eru með PMDD sem hefur ekki svarað öðrum meðferðum. Þetta lyf setur konur í tímabundin tíðahvörf þar sem egglos og blæðingar hætta. Ef fyrirhugað er að nota þetta lyf í lengri tíma þá verður að ræða hormónauppbótarmeðferð til að vernda gegn beinþynningu og minnka einkenni tíðahvarfa eins og td. hitakóf og fl.

    • Skurðaðgerð sem fjarlægir eggjastokka ( oft líka leg ) er svo inngrip sem er hægt að íhuga ef einkenni eru alvarleg og engar fyrri meðferðir skila dugandi árangri.


Heimildir og frekari lesefni.



762 views0 comments

Comments


bottom of page