top of page

Minni löngun í kynlíf – hvað get ég gert sjálf?

Hefur þú upplifað minni löngun í kynlíf eftir að þú byrjaðir á breytingaskeiðinu?


Skortur á kynlöngun er eitt algengasta einkenni kvenna á breytingaskeiði en á sama tíma það sem minnst er talað um – þar til konur eru spurðar beint.

Kynlíf spilar stórt hlutverk í lífi flestra og nánd og kynferðislegur unaður eykur flæði dópamíns og oxytocins í heila og eykur þar með almenna vellíðan. Því miður er kynlíf og kynlöngun ennþá erfitt umræðefni fyrir marga og því margar konur sem þjást í hljóði og þora ekki að ræða þetta. Það er mikilvægt að losa okkur við alla skömm þegar kemur að kynlífi og unaði og opna umræðuna um kynlöngun á breytingaskeiði.

Stór hluti kvenna upplifir minnkaða löngun í kynlíf og minni unað í kynlífi þegar þær koma á breytingaskeiðið. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður enda er kynlöngun kvenna mörgum þáttum háð. Í sumum tilfellum þarf aðstoð lyfja eða hormóna til að bæta kynlöngun en það er líka margt sem þú getur gert sjálf.

Mér finnst vont að stunda samfarir

Estrógen er mikilvægt fyrir heilbrigði slímhúðar í leggöngum, ytri kynfærum og þvagfærum. Með lækkandi gildum estrógens verða slímhúðir þynnri og viðkvæmari, fölari og raki minnkar. Sýrustig í leggöngum breytist líka og verður meira basískt en það var áður. Þetta veldur því að margar konur finna fyrir verkjum eða óþægindum við samfarir eða eftir samfarir. Sumar eru með það mikil einkenni að þær eiga erfitt með að vera í nærfatnaði eða þröngum buxum. Aðrar upplifa að fá endurteknar þvagfærasýkingar. Þetta getur því haft verulega skerðandi áhrif á lífsgæði og hefur ekki bara áhrif á löngun í kynlíf heldur líka nautn og unað og möguleikann á að fá fullnægingu þar sem næmnin verður minni.


Staðbundin hormónameðferð getur skipt sköpum þegar kemur að þessum einkennum. Sum þeirra þarftu að fá lyfseðil fyrir en núna er hægt að fá lyfið Vagidonna án lyfseðils í næsta apoteki en það er það sama og vagifem. Þá notar þú eina töflu í leggöng daglega í 14 daga og svo 2-3x í viku í kjölfarið. Sjá nánar hér: Leggangaþurrkur og þvagfæraeinkenni

Einnig geta góð rakakrem og sleipiefni gert gæfumuninn. Það eru til ýmis krem sem eru framleidd sérstaklega fyrir slímhúð og viðkvæm svæði sem fást án lyfseðils.

Mig langar bara ekkert í kynlíf

Margar konur upplifa mikið minnkaða löngun í kynlíf, líkt og áhuginn sé bara ekki til staðar og sjá fyrir sér að geta alveg lifað án kynlífs út lífið. Fyrir sumar hefur þetta mikil áhrif á sálræna líðan en fyrir aðrar skiptir það minna máli. Ef kyndeyfð er að hafa áhrif á lífsgæði þá mæli ég með því að þú leitir þér aðstoðar.


Rannsóknir hafa sýnt að svefnleysi hafi neikvæð áhrif á kynlöngun. Ef þú ert að upplifa svefntruflanir þá er ekki skrítið að kynlíf sé ekki efst á forgangslistanum. Góðar svefnvenjur og bættur svefn geta því aukið kynlöngun. Streita getur haft neikvæð áhrif á kynlöngun. Reyndu að minnka neikvæða steitu í lífinu, gefðu þér tíma til að rækta sjálfa þig og það sem þú nýtur að gera. Hugleiðsla og núvitund eru góðar til steitustjórnuna. Ef þú átt maka þá er mikilvægt að ræða þessi mál opinskátt. Ræðið um hvað þið getið gert saman og í sitthvoru lagi til að auka nándina á milli ykkar, ræðið langanir og þrár. Sjálf getur þú reynt að kveikja löngun með því að lesa erótískar sögur, búa til aðstæður þar sem þú getur verið ein með makanum þínum, jafnvel legið nakin saman, nuddað hvort annað. Þessar aðstæður, líkt og kynlíf, auka vellíðunarhormónið dópamín í heila og við það gæti löngunin aukist.

Líkaminn minn er ekki eins og hann var

Erfiðleikar með þyngdarstjórnun og breyting á líkamssamsetningu og fitudreifingu er algengt umkvörtunarefni kvenna á miðju aldri. Ef þér líður ekki vel með líkamann þinn þá er skiljanlegt að kynlíf sé þér ekki efst í huga.


Hreyfing er alltaf mikilvæg en ekki síst þegar kemur að því að líða vel í eigin líkama. Við hreyfingu eykst framleiðsla dópamíns í heila en það er vellíðurnarhormón líkamans og einskonar „verðlaun“ fyrir heilann.


Þjálfun, sérstaklega styrktaræfingar með þyngdum eykur einnig testósterón sem er mikilvægt hormón fyrir kynlöngun. Ekki er verra ef þú tekur makann þinn með á æfingu, það eykur nánd, gefur ykkur sameiginlega upplifun, auk þess sem sameiginleg æfing getur boðið uppá ýmsar snertingar og stellingar sem gætu mögulega kveikt einhverja löngun í frekari nánd þegar heim er komið.


Hvað hefur þú gert sjálf til að auka þína kynlöngun?

6,382 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page