ADHD hefur lengi verið tengt við börn og ungt fólk, en á síðustu árum hefur athyglin færst meira að fullorðnum konum. Stúlkur og konur eru mun sjaldnar greindar með ADHD en strákar eða karlmenn. Margar konur fá greiningu seint á ævinni, jafnvel ekki fyrr en þær fara á breytingaskeiðið. Á breytingaskeiðinu og í tíðahvörfunum geta ADHD einkenni versnað verulega. Ef þú hefur þegar farið í greiningu og veist að þú ert með ADHD, gætirðu tekið eftir því að áður vel stjórnuð einkenni verða erfiðari viðureignar með sömu meðferðum eða aðferðum sem áður höfðu virkað vel. Ef þú hefur ekki verið greind með ADHD, gæti upphaf breytingaskeiðsins og þær hormónabreytingar sem fylgja því, valdið því að ADHD einkenni verði meira áberandi. Það gæti einnig gert einkenni verri sem þú hefur ekki áttað þig á að tengist ADHD og hefur hingað til náð að stjórna án utanaðkomandi hjálpar.
ADHD einkenni og breytingaskeiðið
ADHD og breytingaskeiðið eiga það sameiginlegt að bæði geta valdið einbeitingarerfiðleikum, minnistruflunum, tilfinningasveiflum (pirringi, kvíða, depurð), svefnleysi og orkuleysi. Þessi skörun einkenna getur leitt til misskilnings eða rangrar greiningar. Það sem áður var talið „bara hormónasveiflur“ gæti í raun verið ADHD sem hefur ekki verið greint. Mánaðarlegar hormónasveiflur, ásamt meiriháttar breytingum á borð við kynþroska, meðgöngu, breytingaskeið og tíðahvörf, hafa veruleg áhrif á ADHD einkenni.“ Ástæðan er sú að estrógen stjórnar magni heilaboðefna eins og dópamíns, sem virka ekki eins vel hjá einstaklingum með ADHD. Klínískar rannsóknir hafa sýnt að athygli, skipulagning og vinnsluminni, geta batnað þegar estrógenmagn er hærra, en ADHD einkenni versna þegar estrógenmagn er lægra. Á breytingaskeiði og við tíðahvörf, þegar estrógenmagn sveiflast mikið, koma fram einkenni eins og „heilaþoka“ og erfiðleikar með einbeitingu, sem geta verið sérstaklega krefjandi fyrir konur með ADHD.
Lífeðlisfræði ADHD og breytingaskeiðs
Lífeðlisfræðilega tengjast ADHD og breytingaskeiðið þannig að bæði eru undir áhrifum hormónastjórnunar, sérstaklega estrógens. Estrógen hefur áhrif á dópamín, lykilboðefni sem stýrir einbeitingu, umbunarkerfum og tilfinningastjórnun. Konur með ADHD eru því viðkvæmari fyrir þeim sveiflum sem verða í estrógenmagni á breytingaskeiðinu og í kringum tíðahvörfin. Þegar estrógenmagn minnkar, versna oft ADHD einkenni eins og skipulagsleysi, trufluð einbeiting og skapsveiflur. Með því að bæta upp estrógen má draga úr þessum áhrifum. Estrógen stuðlar að losun bæði serótóníns og dópamíns í heilanum. Það eykur einnig framleiðslu dópamíns og dregur úr niðurbroti þess í líkamanum. Þetta skiptir miklu máli, þar sem ADHD veldur oft truflun í dópamínframleiðslu og estrógen getur hjálpað til við að framleiða, losa og viðhalda dópamínmagni.
En hvað er hægt að gera?
Meðferð felur oftast í sér blöndu af sálfræðilegum inngripum og, fyrir suma, lyfjameðferð. Sumir einstaklingar geta stjórnað ADHD einkennum sínum án lyfja, en aðrir finna fyrir verulegum ávinningi af notkun ákveðinna lyfja. Það eru til mismunandi úrræði til að styðja við einstaklinga með ADHD, allt eftir einkennum þeirra og áhrifum þeirra á daglegt líf. Það er mikilvægt að finna meðferð sem er sniðin að þínum þörfum.
Hormónameðferð (HRT): Hormónauppbótarmeðferð (HRT) hefur reynst gagnleg fyrir sumar konur sem glíma við bæði ADHD og breytingaskeiðið. Með því að jafna út estrógensveiflur má oft draga úr einkennum eins og skapsveiflum og einbeitingarerfiðleikum. Ef þú ert ekki þegar á lyfjum til að meðhöndla ADHD getur það að byrja á estrógeni verið nóg til að hjálpa við að stjórna ADHD einkennum þínum. Þetta gæti einnig bætt önnur einkenni breytingaskeiðs eða tíðahvarfa sem þú ert að upplifa.
ADHD lyfjameðferð:Hefðbundin ADHD lyf eru áfram áhrifaríkir valkostir fyrir ADHD, óháð hormónabreytingum. Hins vegar er mikilvægt að fylgjast með breytingum á verkun lyfjanna í samræmi við hormónagildi. Ef þú notar nú þegar lyf við ADHD gæti þurft að stilla þau af eða breyta þegar þú byrjar á hormónauppbótarmeðferð (HRT).
Lífsstílsbreytingar: Svefn, hreyfing og mataræði hafa öll áhrif á bæði ADHD og hormónabreytingar. Jafnvægi í daglegu lífi með streitustjórnun, andlegri sjálfsrækt og reglulegri hreyfingu getur bætt líðan og starfsemi heilans.
Geðheilsa: Konur með ADHD eru í aukinni hættu á kvíða og þunglyndi, sérstaklega þegar hormónar minnka. Það er mikilvægt að veita stuðning á þessum sviðum með samtalsmeðferð og öðrum aðferðum sem styðja við andlega líðan.
Þrátt fyrir aukinn áhuga á ADHD í fullorðnum konum og tengslum þess við hormónabreytingar, er rannsóknarsviðið enn ungt. Flestar rannsóknir hafa einbeitt sér að ADHD hjá körlum og börnum, sem þýðir að margt er óljóst um hvernig konur upplifa þessa sjúkdómsgreiningu í gegnum lífsbreytingar á borð við breytingaskeiðið. Breytingaskeiðið getur verið áskorun fyrir allar konur, en þær sem lifa með ADHD upplifa oft tvöfaldar hindranir vegna hormónasveiflna sem magna upp einkenni. Mikilvægt er að efla vitund og fræðslu um þetta viðfangsefni og styðja konur með einstaklingsmiðaðri meðferð og ráðgjöf. Að viðurkenna og meðhöndla ADHD á breytingaskeiðinu getur haft gríðarlega jákvæð áhrif á lífsgæði og vellíðan kvenna.
Pistillinn er byggður á bæklingi um ADHD og breytingaskeið kvenna sem er að finna inni á https://www.balance-menopause.com
Comments