Margar konur upplifa truflandi breytingar á starfsemi heilans í tengslum við breytingaskeiðið. Þær lýsa þessum einkennum sem heilaþoku, eða eins og þær séu inni í búbblu. Þú gætir tekið eftir því að þú ert orðin gleymnari en áður, átt erfitt með að muna nöfn og númer, t.d PIN númer, manst ekki hvar þú settir lyklana þína, þarft að skrifa allt niður á "to do" lista, átt erfitt með að meðtaka nýjar upplýsingar, og halda einbeitingu og athygli. Öll þessi einkenni geta verið truflandi fyrir daglegt líf og e.t.v finnst þér erfitt að sinna vinnu, og átt erfitt með að lesa eða horfa á sjónvarpið.
Talið er að allt að 80% kvenna upplifi heilaþoku. Hvað er þessi heilaþoka eiginlega? Um er að ræða samansafn einkenna sem lýsa sér þannig að konur upplifa breytingu á vitrænni getu. Þær upplifa að eiga erfitt með að halda einbeitingu og athygli, gleyma orðum og tölum, og eiga erfitt með að halda utanum flókin verkefni sem áður voru einföld.
Þessi einkenni geta haft neikvæð áhrif á lífsgæði og valda oft talsverðum áhyggjum. Þú gætir jafnvel hugsað með þér hvort þú sért að þróa með þér heilabilun eða snemmkominn alzheimersjúkdóm eða sért jafnvel komin með heilaæxli. Þetta getur valdið hugarangri, sérstaklega ef það er saga um alzheimer í fjölskyldunni. Einkennin geta verið það truflandi að þú ákveður að leita til læknis og ert mögulega send í rannsóknir eins og myndatöku af heila eða uppvinnslu vegna minnistruflana.
Líklegt er að allar rannsóknir komi eðlilega út, en þú finnur samt að eitthvað er ekki eins og það á að vera, þú þekkir ekki sjálfa þig og þessa heilaþoku. Hvað er eiginlega í gangi? Við viljum öll hafa heilann í lagi. Er þetta bara í hausnum á þér eða eru hormónin að hafa þessi áhrif á þig? Hér er mikilvægt að muna að allar konur sem ná ákveðnum aldri ganga í gegnum breytingaskeiðið en það er sjaldgæft að greinast með heilabilun fyrir 64 ára aldur.
Margt bendir til þess að heilaþoka geti verið afleiðing af hormónabreytingum, sér í lagi hærra og lægra magni af estrógeni. Við hugsum oft um estrógen sem kynhormón vegna þess að það hefur áhrif á æxlunarfærin okkar og brjóstin. Þó estrógen sé aðallega framleitt í eggjastokkunum þá virkar það ekki bara staðbundið. Estrógen fer út um allan líkamann og hefur áhrif á starfsemi frumna í öllum líffærakerfum - líka í heilanum okkar. Rannsóknir hafa sýnt að Estrógen örvi notkun glucosa í heila, sem er aðal eldsneyti heilans. Það örvar leiðni taugaboða, styður við nýmyndum heilafruma og myndun nýrra taugatenginga. Það styrkir líka æðar og stuðlar þar með að góðu blóðflæði til heilans sem er algjör grundvöllur til að koma í veg fyrir minnisleysi og hefur auk þess bólguminnkandi áhrif.
Testosterón, sem oftast er talað um sem aðal karlhormónið er líka framleitt í talsverðu magni í eggjastokkunum og hefur einnig víðtæk áhrif á hinar ýmsu heilastöðvar sem stýra m.a minni, einbeitingu, athygli, ákvarðanatöku og tilfinningum. Þessar heilastöðvar stýra því hvernig okkur gengur að læra og tileinka okkur nýja færni.
Það er því ekkert skrítið að sumar konur fara að ströggla þegar magn hormónanna lækkar og yfirleitt eru þessi einkenni verst þegar sveiflurnar eru sem mestar á tímabilinu sem kallast breytingaskeið (e. perimenopause þ.e þegar þú ert ennþá á blæðingum en tíðahringurinn kannski orðinn óreglulegur eða breyttur að öðru leiti.
Þegar magn estrógens og testosterons lækkar upplifir líkaminn og heilinn ákveðinn hormónaskort og þarf að endurstilla sig og aðlagast breyttu umhverfi og leita nýrra leiða til að fá orku.
Einnig þurfum við að taka almenna öldrun með í reikninginn. Líkt og önnur líffæri hrörnar heilinn með hækkandi aldri hjá báðum kynjum þannig minni og geta til að einbeita sér minnkar. Þó það geti vissulega valdið hugarangri að upplifa minnistruflanir þá er engin ástæða til að óttast þessar breytingar sem verða í tengslum við breytingaskeiðið. Góðu fréttirnar eru nefninlega þær að þessar breytingar eru yfirleitt tímabundar og ganga yfir þegar jafnvægi næst á hormónabúskapinn. Auk þess er margt sem við getum gert sjálfar með góðum venjum og lífstíl til að styðja við heilbrigði heilans.
Hugarleikfimi. Haltu huganum við efnið. Taktu áskorunum og lærðu eitthvað nýtt.
Félagsleg tengsl. Hittu fólk og vertu þátttakandi í nærsamfélaginu.
Forðastu reykingar og haltu áfengisneyslu í hófi.
Tenglar:
Comments