Svefnvandi er oft fyrsta vísbendingin um að breytingaskeiðið sé að hefjast en rannsóknir hafa sýnt að svefnvandamál eru algeng hjá konum á breytingaskeiðinu. Ástæður fyrir truflun á svefni á þessu tímabili eru m.a. hitakóf, svitakóf, tíð þvaglát, liðverkir, hjartsláttartruflanir og kvíði. Konur kenna oft streitu um þar sem mikið er um að vera hjá þeim bæði í einkalífi og starfi á þessum tíma í lífinu. Það eru fáar konur sem tengja svefnvanda við flöktandi hormón. Hormónin estrógen og testósterón hafa mikilvæg áhrif á heilann, þ.á m. á gæði og lengd svefnsins. Hormónið prógesterón getur bætt svefninn með því að auka framleiðslu á GABA (gamma aminobutyric acid), sem er taugaboðefni í miðtaugakerfinu.
Það er vitað að svefnleysi getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf þitt og þína heilsu almennt. Svefn hefur áhrif á andlega líðan, frammistöðu í vinnu, úthald, einbeitingu, ónæmiskerfið og jafnvel útlit okkar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að svefnleysi getur einnig ýtt undir ofþyngd.
Það er misjafnt hvað við þurfum mikinn svefn, yfirleitt er það á bilinu 7-9 tímar. Þú finnur það fljótt á þér næsta dag hvort þú hafir sofið nóg. Góðar svefnvenjur skipta miklu máli fyrir góðan svefn og mikilvægt er að byggja upp svefnþrýsting frá því að við vöknum á morgnana þangað til við förum að sofa á kvöldin.
Þættir sem hjálpa til við að byggja upp svefnþrýsting:
Hreyfing, sérstaklega úti.
Vitræn örvun, t.d lestur, samskipti við fólk.
Hafa tímann sem þú ert vakandi sem lengstan
Comments