top of page

Geðheilsa kvenna á breytingaskeiði



Breytingaskeiðið getur svo sannarlega haft áhrif á geðheilsu kvenna. Geðræn einkenni geta skotið upp kollinum í fyrsta skipti á ævinni á þessu tímabili eða fyrri geðræn einkenni versnað. Algengast er að þetta gerist 5-10 árum fyrir tíðahvörf en einnig getur þetta gerst um eða eftir tíðahvörfin. Þessi geðrænu einkenni eru til dæmis kvíði, kvíðaköst, þunglyndi, depurð, pirringur, skapsveiflur, lágt sjálfstraust, versnun á ADHD einkennum, einbeitingarerfiðleikar, minnisleysi og fleira. Truflanir á svefni, hitakóf og mörg líkamleg einkenni hafa vissulega líka sín áhrif á andlega líðan.  Konur með sögu um fyrirtíðaspennu eða fæðingarþunglyndi eru í áhættuhóp varðandi versnun á andlegri líðan á breytingaskeiði. Andleg vanlíðan getur verið misalvarleg og haft mismikil áhrif á okkar daglegu líðan en í sumum tilvikum getur þetta ástand haft þau áhrif að áður traust sambönd eða hjónabönd geta farið í vaskinn, vinnan getur orðið óyfirstíganleg og áhugaleysi getur orðið algjört varðandi hluti og athafnir sem áður sköpuðu gleði og ánægju. Einstaka konur komast vel í gegnum þetta tímabil í lífinu meðan aðrar upplifa mikla sálræna vanlíðan. Oft eru þetta konur sem ekki hafa áður glímt við geðrænan vanda.   


Klínískt þunglyndi eða breytingaskeiðið?

Andleg einkenni depurðar eða þunglyndis eins og þau koma fram á breytingaskeiðinu geta verið mjög lík klínísku þunglyndi og stundum erfitt að greina á milli.  Munur er þó á klínísku þunglyndi og þunglyndi eða depurð vegna breytingaskeiðsins. Dæmigert klínískt þunglyndi er samfelld depurðartilfinning og varir vikum eða mánuðum saman. Andleg einkenni breytingaskeiðsins geta einkennst af þunglyndi/depurð en einnig ýmsum öðrum einkennum sem sveiflast milli vikna. Ef ástæða vanlíðaninnar kemur samhliða öðrum einkennum breytingaskeiðsins er ekki endilega rétta meðferðin að setja konu á þunglyndislyf heldur ætti hormónameðferð mun frekar að vera fyrsta val.  


Hafa hormónabreytingar áhrif á heilann?

Hormónabreytingar þær sem verða á breytingaskeiðinu hafa áhrif á heilann á ýmsan hátt. Estrógen hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna. Lækkun á estrógeni og óstöðugleiki getur haft neikvæð sálræn áhrif á sumar konur. Sveiflur í hormónum geta þannig haft gífurlega mikil áhrif á geðheilsu kvenna.  


Hvað er hægt að gera?

Sýnt hefur verið fram á árangur af notkun estrógens við þunglyndi á breytingaskeiði bæði eitt og sér en einnig samhliða öðrum þunglyndislyfjum. Það hvað er notað í hverju tilviki fyrir sig ætti að vera metið af fagaðila í samráði við konuna sjálfa. Ráðgjöf og lífstílsfræðsla samhliða réttri notkun hormónameðferða hjá konum á breytingaskeiði getur verið mikilvæg viðbót við þá geðrænu meðferð og lyf sem konan hefur verið á áður. Hormónauppbót á breytingaskeiðinu getur stutt við og bætt virkni annarra geðlyfja og bætt lífsgæði. Þetta á við bæði um konur sem hafa áður haft geðrænar áskoranir en einnig vegna nýtilkominna geðrænna einkenna eða andlegrar vanlíðunar. Lífstílsfræðsla er alltaf mikilvæg samhliða hormónauppbót því holl og fjölbreytt næring, hæfileg hreyfing, góður svefn og streitustjórnun eru allt þættir sem hafa mikil áhrif á andlega heilsu jafnt sem líkamlega. Breytingaskeiðið þarf alls ekki að vera neikvætt m.t.t. andlegrar heilsu. Með því að hlusta á okkar eigin líkama og leita okkur ráðgjafar er vel hægt að komast í gegnum þetta tímabil á jákvæðan hátt. Margar konur tala um að eftir þennan hormónarússíbana taki við tímabil sáttar, meira andlegs jafnvægis og aukins sjálfstrausts eftir að hormónasveiflurnar ganga yfir.  Það er því góð ástæða til að vera bjartsýn. Það birtir alltaf til að lokum.   

 

Heimildaskrá 

Behrman og Crockett. (2023). Severe mental illness and the perimenopause. BJPsych Bulletin,  1-7. https://doi.org/10.1192/bjb.2023.89 

Hamoda, H., Panay, N., Pedder, H., Arya, R. og Savvas, M. (2020). The British menopause society & women's health concern 2020 recommendations on hormone replacement therapy in menopausal women. Post Reproductive Health, 26(4), 181-209. https://doi.org/10.1177/2053369120957514 

Herson, M. og Kulkarni, J. (2022). Hormonal agents for the treatment of depression associated with the menopause. Drugs & Aging, 39(8), 607-618. https://doi.org/10.1007/s40266-022-00962-x 

Kulkarni, J. (2018). Perimenopausal depression – an under-recognised entity. Australian Prescriber, 41(6), 183-185. https://doi.org/10.18773/austprescr.2018.060 

Kulkarni, J. (2023). Estrogen - A key neurosteroid in the understanding and treatment of mental illness in women. Psychiatry Research, 319, 114991. https://doi.org/10.1016/j.psychres.2022.114991 

Newson, L. (2023). The definitive guide to the perimenopause & menopause (1.ed. útgáfa) (kafli 5 bls. 135)  https://suffolk.spydus.co.uk/cgi-bin/spydus.exe/ENQ/WPAC/BIBENQ?SETLVL=&BRN=3269056 

NICE Recommendations (2024). Menopause: identification and management. Managing symptoms associated with menopause in people aged 40 or over.  Sótt  af:  https://www.nice.org.uk/guidance/ng23/chapter/Recommendations#managing-short-term-menopausal-symptoms 

 

618 views0 comments

Recent Posts

See All

Jólastreita

Commentaires


bottom of page