Þó þú sért komin á breytingaskeiðið getur þú enn átt möguleika á að verða þunguð. Ef þú vilt alls ekki verða þunguð er mikilvægt að vera á öruggri getnaðarvörn. Hjá konum 50 ára og eldri er mælt með getnaðarvörn í 1 ár eftir síðustu blæðingar. Hjá konum undir 50 ára er mælt með getnaðarvörn í 2 ár eftir síðustu blæðingar. Hormónauppbótarmeðferð ein og sér er ekki getnaðarvörn. Eftir 55 ára má ganga út frá því að flestar konur séu komnar af frjósemisskeiði og ætti ekki að vera þörf á getnaðarvörn eftir það.
Góðir kostir fyrir konur á breytingaskeiði eru td:
Mirena hormónalykkja, en hún getur verið notuð sem bæði getnaðarvörn og progesterone hluti hormónauppbótarmeðferðar. Hún getur líka minnkað blæðingar, en blæðingar aukast oft á breytingaskeiði.
Progesterone getnaðarvarnir, td minipillan (cerezette) stafurinn eða sprautan.
Samsettar hormónagetnaðarvarnir ss pillan og hringurinn má nota til 50 ára aldurs ef engir aðrir áhættuþættir eru til staðar. Ef kona reykir og eða er í yfirþyngd er ekki mælt með notkun samsettu pillunnar eftir 40 ára vegna aukinnar blóðtappahættu. Samsetta pillan getur lîka haft jákvæð áhrif á breytingaskeiðseinkenni að einhverju leiti.
Hormónalausar getnaðarvarnir ss koparlykkjan eða smokkur koma að sjálfsögðu líka til greina.
Ekki er mælt með því að nota náttúrulegar aðferðir eins og að fylgjast með tíðahringnum því hann er yfirleitt heldur óáreiðanlegur á þessu tímabili og erfitt að vita hvenær egglos getur orðið.
Commentaires