Október er mánuður tileinkaður breytingaskeiðinu. 18. október er dagur breytingaskeiðsins.
Alþjóðlegu breytingaskeiðssamtökin ( International Menopause Society/IMS) hafa ákveðið að yfirskriftin árið 2023 sé hjarta- og æðasjúkdómar.
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum.
Markmið með yfirskrift IMS er að vekja athygli og upplýsa almenning og heilbrigðisstarfsfólk um orsakir og áhrif hjarta- og æðasjúkdóma á konur. Einnig er lögð áhersla á hvað sé mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum hjá konum.
Konur greinast yfirleitt 7-10 árum á eftir karlmönnum og átta sig ekki endilega á því hversu mikil áhættan er eftir því sem árin færast yfir. Einkenni kvenna geta líka verið aðeins frábrugðin einkennum karla.
Hvað eru hjarta- og æðasjúkdómar:
Kransæðasjúkdómar: Hlutverk kransæðanna er að næra hjartavöðvann. Í kransæðasjúkdómum stíflast þessar æðar vegna spasma eða stíflu. Þegar slíkt gerist eiga þær erfitt með að sinna hlutverki sínu sem er að næra hjartavöðvann. Dæmi um almenn einkenni sem geta komið fram eru brjóstverkur, þyngslaverkur eða andþyngsli. Einkenni kvenna geta verið aðeins frábrugðin einkennum karla. Konur upplifa frekar einkenni eins og slappleika, þreytu, meltingartruflanir og kvíða. Ef ekki er gripið inn í tímanlega getur þetta leitt til hjartaáfalls.
Hjartabilun er að greinast í auknu mæli hjá konum. Þetta er ástand sem kemur fram þegar hjartað nær ekki að dæla blóðinu sem skyldi út í líkamann og fer þá að safna vökva í lungum og á fótum. Orsakir hjartabilunar geta verið kransæðasjúkdómar, háþrýstingur eða sykursýki. Einkennin koma m.a fram sem þreyta, mæði og bjúgur.
Blóðtappar (TIA) og heilablóðföll eru líka tegund af hjarta- og æðasjúkdómum. Einkennin koma yfirleitt snöggt og geta verið margþætt, t.d sjóntruflanir, tjáningarerfiðleikar, minnkaður máttur í útlimum, og ruglástand.
Af hverju eru hjarta- og æðasjúkdómar að aukast hjá konum?
Háþrýstingur, offita og sykursýki er að aukast hjá yngri og eldri konum. Það hefur í för með sér auknar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.
Það er margt sem hægt er að gera til að minnka líkur á því að fá hjarta og æðasjúkdóma.
Því fyrr sem við grípum inn í því betra!
Heimildir:
Comentários