Mígreni er slæm tegund af höfuðverk sem kemur í köstum og hefur þau áhrif að einstaklingar geta ekki sinnt athöfnum daglegs lífs. Mígreni er ættgengt og byrjar oft í kringum kynþroskaaldurinn. Einkenni mígreniskasta eru misjöfn á milli einstaklinga og geta varað í mislengi. Kastið getur staðið yfir í 4-72 klukkutíma og komið allt frá nokkrum sinnum í viku í það að það geta verið ár á milli mígreniskasta. Einkennin lýsa sér í sárum höfuðverk, jafnvel með æðaslætti, yfirleitt öðrum megin í höfðinu. Verkjakastinu fylgir oft ógleði, uppköst og ofurnæmi fyrir birtu og hljóðum.
Um 25% einstaklinga fá fyrirboða (aura) sem getur varað frá 5-60 mínútum fyrir verkjakast. Fyrirboða (aura) geta fylgt margþætt einkenni eins og t.d sjónræn truflun, náladofi, svimi og taltruflun. Sumir upplifa fyrirboða en ekkert verkjakast, það kallast þá þögult mígreni.
Vissir þú að konur á breytingaskeiði upplifa stundum að mígreni án fyrirboða versnar?
Konur eru 23 sinnum líklegri en karlar að upplifa mígreni. Hormónasveiflur aukast á breytingaskeiðstímanum og getur mígreni án fyrirboða versnað á sama tíma og blæðingarnar verða meiri og óreglulegri.
Mígreni án fyrirboða virðist vera tengt falli á hormóninu estrógeni og þess vegna virðist það versna í kringum breytingaskeiðið. Mígreni með fyrirboða er stundum tengt hærri estrógengildum eins og á meðgöngu, við inntöku getnaðarvarnar-pillunnar eða í upphafi hormónauppbótameðferðar/HRT, á meðan líkaminn er að venjast hærri gildum af estrógeni.
Einkenni breytingaskeiðsins eins og hita-og svitakóf, svefnvandi og skapsveiflur geta einnig ýtt undir mígrenisköst. Eftir tíðahvörf jafnast hormónasveiflurnar út og fækkar þá oft höfuðverkjaköstunum. Það er mjög misjafnt á milli kvenna hvað þetta tekur langan tíma.
Hjá yngri konum getur mígreni komið fram einum til tveimur dögum áður en blæðingar byrja og hjá konum sem taka getnaðarvarnarpilluna getur það komið fram í vikunni þegar hlé er á inntöku pillunnar.
Það er mjög einstaklingsbundið hvaða þættir geta kallað fram mígreni. Þess vegna getur verið gagnlegt að halda dagbók til að gera sér grein fyrir hvað ýtir undir mígrenisköstin.
Heilbrigður lífsstíll getur haft jákvæð áhrif à tíðni mígrenikasta. Regluleg, hófleg hreyfing, streitustjórnun, góður svefn, góð næring, næg vökvainntaka og takmörkun á koffíni og áfengi getur dregið úr mígrenisköstum.
Hormónauppbótarmeðferð/HRT getur verið hjálpleg til að létta á einkennum mígrenis ásamt því að hún hjálpar til með önnur einkenni breytingaskeiðsins. HRT er meðferð með hormónum sem ætlað er að jafna út hormónasveiflurnar og að lokum hormónaskortinn sem verður á breytingaskeiðinu. Það að þjást af mígreni útilokar það ekki að geta tekið HRT. Það eru ákveðnar tegundir af HRT sem henta betur en aðrar fyrir konur með mígrenissögu, eins og t.d. estrógen í gegnum húð.
Mikilvægt er að taka fram að ekki eru allar tegundir af mígreni sem tengjast hormónasveiflum. Sumar konur halda áfram að upplifa mígreni eftir tíðahvörf og jafnvel á meðan þær eru á HRT.
Verkjalyf eins og paracetamol og íbúfen geta hjálpað við höfuðverk. Einnig eru til önnur verkjalyf sem gefin eru sérstaklega við mígrenishöfuðverk. Best er að leita ráða hjá sínum lækni varðandi þau lyf.
Heimildir:
.
Comments