top of page

Streita

Konur þekkja vel að vera undir streitu og miklu álagi. Það á sérstaklega við á tímanum í kringum breytingaskeiðið. Þessi hópur kvenna er gjarnan með marga bolta á lofti í einu. Þær eru oft að sinna ábyrgðarmiklu starfi, með börn og unglinga heima, aldraða foreldra sem oft treysta mikið á þeirra aðstoð og jafnvel orðnar ömmur líka.

Það er rík hefð hjá konum að vilja standa sig vel á öllum vígsstöðvum. Ofan á daglegt álag vilja konur gjarnan líka hugsa vel um heilsuna og útlitið.



Flöktandi hormón á breytingaskeiðinu hafa áhrif á hvernig við bregðumst við streitu og getur það látið okkur líða eins og við ráðum ekki eins vel við hlutina og áður. Oft er erfitt að átta sig á því að um hormónaójafnvægi sé að ræða.


Hormónið Estrógen hefur mikil áhrif á sállíkamlega vellíðan hjá konum. Estrógen hefur áhrif á fjölmargar stöðvar í heilanum. Þessar stöðvar eru mjög næmar fyrir sveiflunum sem verða á Estrógeni á breytingaskeiðstímanum. Þessar stöðvar hafa meðal annars með minni, svefn, andlega líðan og hitastjórnun að gera.


Líkaminn er hannaður þannig, að þegar eggjastokkarnir fara að verða sveiflukenndir í framleiðslu á góðu kvenhormónunum okkar eins og Estrógeni og hætta svo að lokum taka nýrnahetturnar við að hluta til. Vandamálið er að nýrnahetturnar eru oft undir miklu álagi fyrir og setja ekki í forgang að framleiða fyrir okkur kvenhormón eins og Estrógen.

Þegar líkaminn túlkar streituástand meta nýrnahetturnar það sem svo að um hættuástand sé að ræða og það sé skynsamlegra að framleiða streituhormón eins og t.d Cortisól og Adrenalín fram yfir Estrógen.

Í nútímasamfélagi þar sem við erum oftast öruggar og ekki í lífshættu eru þetta vondar fréttir fyrir konur vegna þess að Estrógen er mjög hjálplegt fyrir sállíkamlega vellíðan.

Leiðin til að vinna á móti þessu kerfi er að reyna að stýra streitunni okkar dags daglega. Það getur verið vandasamt að minnka streituna í hröðu nútímasamfélagi en það eru leiðir til þess að takast á við hana.


Hvernig tökumst við á við streitu og álag?


*Gerum einn hlut í einu. Það fylgir því mikið álag og streita að gera marga hluti í einu og því fylgir verri frammistaða og auknar líkur á mistökum.


*Sinnum áhugamálunum okkar. Það er mikil streitulosun í því að gera það sem okkur finnst skemmtilegt.


*Öndunaræfingar eru hjálplegar til að róa hugann. Dæmi um einfaldar og góðar öndunaræfingar er að anda inn á meðan þú telur upp á 4 og anda síðan út á meðan þú telur upp á 7. Þetta er hægt að gera í nokkrar mínútur daglega. Þessi æfing er sérstaklega gagnleg ef við erum undir miklu álagi.


*Hreyfing er mjög hjálpleg og talað er um að þegar við stundum hreyfingu slökkvum við á stöðvum í heilanum sem taka ákvarðanir og þess vegna fáum við hvíld í smá stund frá huganum. Ef við finnum að við erum undir álagi og streitu þarf að vanda valið þegar kemur að hreyfingu. Æfingar af mikilli ákefð geta aukið á streitu í líkamanum. Í streituástandi er gott að velja rólegri hreyfingu, helst utandyra eins og t.d göngur og Jóga.


*Hugurinn er flókið fyrirbæri og getur haft mikil áhrif þegar kemur að streitu. Hugsanirnar okkar hafa bein áhrif á það hvernig okkur líður. Mikilvægt er að sætta sig við að hugsanir koma og fara, við ráðum ekki við hvaða hugsanir koma en við ráðum því hvort við veitum þeim athygli. Neikvæðar tilfinningar koma út frá neikvæðum hugsunum sem við erum að veita athygli.

Sumum finnst gott að halda dagbók yfir hugsanir sínar og tilfinningar. Við það fáum við ákveðna stjórn og eigum oft auðveldara með að vega og meta hversu raunsæjar hugsanirnar okkar eru.


*Góður svefn er eitthvað sem við ættum alltaf að setja í forgang, sérstaklega á álagstímum. Í svefni vinnum við úr því sem gerist yfir daginn.


*Hormónauppbótarmeðferð (HRT) getur verið hjálpleg til þess að jafna út hormónasveiflurnar og að lokum bæta upp hormónaskortinn sem verður. Hormónasveiflurnar sem verða á breytingaskeiðstímanum gera það stundum að verkum að konur upplifa sig mjög ólíkar því sem þær eru vanar að vera.


Mikilvægt er að fá aðstoð og stuðning frá sínu nánasta fólki. Ef það dugar ekki til þá að leita til fagaðila. Það er ótrúlega margt sem við getum gert sjálfar til að stýra streitunni okkar.


Einföldum lífið okkar eins og við getum!



Heimildir:




Jerome F. Strauss og Robert L. Barbieri. (2014). Yen Jaffe's Reproductive Endocrinology



956 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page