top of page

Andleg líðan á breytingaskeiðinu


Upplifun kvenna af breytingaskeiðinu er mjög einstaklingsbundin. Stór hluti af konum upplifir einkenni sem hafa neikvæð áhrif á þær bæði í einkalífi og starfi. Hormónið Estrógen

(aðalhormónið sem dvínar á breytinga- skeiðinu) hefur áhrif á nánast allar frumur líkamans og öll okkar líffærakerfi, þ.á.m á starfsemi heilans og andlega líðan.

Flestir tengja breytingaskeiðið við hita-og svitakóf en þetta eru yfirleitt einkennin sem eru minnst truflandi fyrir konur. Það eru einkennin sem aðrir sjá ekki eins og andlegu einkennin sem reynast konum oft erfiðust. Einkenni breytingaskeiðsins geta staðið yfir í mörg ár eða jafnvel áratugi og geta konur byrjað að finna fyrir einkennum þó að þær séu ennþá á reglulegum blæðingum.


Depurð og einkenni þunglyndis geta verið algeng einkenni á breytingaskeiði og í kringum tíðahvörf. Önnur sálræn einkenni geta komið fram eins og minnkað sjálfstraust, minni drifkraftur, kvíði, pirringur, kvíðaköst, einbeitingarskortur, almennt orkuleysi og jafnvel sjálfsvígshugsanir. Þessi einkenni eru oft misgreind sem þunglyndi og fá konur gjarnan ranglega uppáskrifuð þunglyndislyf.


Ef þú hefur upplifað fæðingarþunglyndi eða ert með sögu um fyrirtíðarspennu þá er líklegra að þú upplifir þessi einkenni á breytingaskeiðinu. Ástæðan fyrir því er sú að líkami þinn er viðkvæmari fyrir hormónasveiflum.


Það er mikilvægt að huga að lífsstílnum á breytingaskeiðinu og í kringum tíðahvörf. Miðjarðarhafsmataræðið hefur mikið verið rannsakað og er það talið gott fyrir alla og þá sérstaklega fyrir konur á breytingaskeiði. Gott er að huga að því að minnka áfengisneyslu og hætta reykingum ef við á. Hreyfing hefur einnig jákvæð áhrif á heilsu almennt og þá sérstaklega á andlega líðan.


HRT/hormónauppbótarmeðferð:

Hormónauppbótarmeðferð (HRT) er áhrifaríkasta meðferðin við breytingaskeiðseinkennum. Konur finna oft að ef þær taka rétta skammt af estrógeni hefur það jákvæð áhrif á andlega vanlíðan og önnur einkenni tengd breytingaskeiðinu. Konur finna oft fyrir meiri innri ró, hafa meiri orku, eru áhugasamari og líður almennt betur þegar þær taka HRT.

Sumar konur þurfa líka að taka hormónið testósterón sem er gefið sem gel. Testósterón er framleitt í eggjastokkunum fyrir tíðahvörf og er mikilvægt fyrir heilastarfsemi kvenna, kynlöngun og getur haft jàkvæð áhrif á orku og einbeitingu.

Hættan á beinþynningu, hjartasjúkdómum og sykursýki lækkar ef þú tekur HRT. Að auki hjálpar HRT konum að líða almennt betur og getum við litið svo á að við séum að fjárfesta í framtíðinni.


Nánari upplýsingar hormónauppbótarmeðferð má finna á:


Þessar upplýsingar eru unnar úr fræðsluefni frá Dr. Louise Newson, heimilislækni og sérfræðingi í breytingaskeiði kvenna. Louise hefur lagt mikla vinnu í að opna umræðuna og bæta þekkingu almennings og fagfólks í Bretlandi varðandi breytingaskeiðið.









1,590 views0 comments

Recent Posts

See All

Streita

bottom of page