top of page

Áhrif breytingaskeiðsins á parsambönd


Áhrif breytingaskeiðsins á parsambönd

Tíminn þegar konur fara í gegnum breytingaskeiðið getur verið mikil áskorun fyrir báða aðila í parsambandinu. Eins og orðið breytingaskeið segir til um þá er þetta tímabil breytinga hjá konum. Á þessu tímabili eru konur að upplifa andlegar og líkamlegar breytingar. Í sumum tilfellum eiga breytingarnar sér stað yfir langt tímabil og konur og makar þeirra átta sig oft ekki á því hvað það er sem veldur. Það er mjög misjafnt hvaða einkenni konur upplifa en oft eru þetta einkenni sem eru truflandi fyrir lífsgæði konunnar, líkt og þreyta og orkuleysi, áhugaleysi, kvíði, depurð, pirringur, svefnleysi, liðverkir, einkenni frá þvag og kynfærum og minnkuð kynlöngun. Mörg af þessum einkennum geta haft áhrif á parsambandið. Þegar annar aðili í parsambandi er að glíma við vanda tengt sinni heilsu þá getur komið upp ójafnvægi í parsambandinu sem getur valdið óöryggi og höfnunartilfinningu hjá maka. Að konur og makar þeirra leiti sér upplýsinga um breytingaskeiðið og einkennin á þessu tímabili getur verið lykill að færsæld parsambandsins.

Minni kynlöngun og minni unaður í kynlífi

Skortur á kynlöngun er eitt algengasta einkenni breytingaskeiðsins og oft það einkenni sem minnst er talað um. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður enda kynlöngun kvenna háð mörgum þáttum. Í sumum tilfellum þarf aðstoð lyfja eða hormóna til að bæta kynlöngun. Konur geta einnig fundið fyrir leggangaþurrki, verkjum eða óþægindum við eða eftir samfarir. Testósterón hefur áhrif á kynlöngun og Estrogen er mikilvægt fyrir heilbrigði slímhúðar í leggöngum, ytri kynfærum og þvagfærum. Staðbundin hormónameðferð getur skipt sköpum til að aðstoða með einkenni líkt og leggangaþurrk. Sjá nánar hér: Minni löngun í kynlíf - hvað get ég gert sjálf? Leggangaþurrkur og þvagfæraeinkenni


Líkamlegar breytingar

Margar konur upplifa breytingar á líkama sínum þegar þær fara í gegnum breytingaskeiðið. Hita- og svitakóf, þyngdaraukning og lið- og vöðvaverkir eru algeng einkenni sem geta haft áhrif á sjálfsmynd kvenna. Margar konur lýsa því að þær eigi nóg með sjálfan sig og eigi lítið að gefa maka sínum á þessu tímabili.


Andleg líðan

Kvíði, depurð, áhugaleysi og framtaksleysi eru algeng einkenni sem fylgja breytingaskeiðinu. Oft hafa konur aldrei upplifað slíkt áður og reyna hvað þær geta að finna skýringar á líðan sinni. Sjá nánar hér: Andleg líðan á breytingaskeiðinu


Hvernig getur parsambandið blómstrað á ný?

Öll ofantalin atriðið geta valdið því að pör fjarlægist eða að spenna/ójafnvægi myndast í parsambandinu. Mikilvægt er að konur leiti sér aðstoðar ef þær telja einkenni sín vera hamlandi fyrir þeirra lífsgæði. Hægt er að slá á einkenni vegna breytingaskeiðsins með hormónauppbótarmeðferð (HRT). Fyrir flestar konur er HRT örugg og áhrifarík meðferð gegn einkennum. Sjá nánar hér: Ávinningur hormónauppbótar/HRT


Rannsóknir sýna að þekking og skilningur beggja aðila í parsambandi, á áhrifum breytingaskeiðsins, og opin samskipti getur hjálpað pörum að fara farsællega í gegnum þetta tímabil. Að fá ráðgjöf frá fagaðila t.d para - og fjölskylduráðgjafa er öruggur staður fyrir báða aðila í parsambandinu til að vinna úr þeim áskorunum sem breytingaskeiðið hefur lagt á parsambandið. Fagaðili aðstoðar pör í vanda með að auka nánd, traust og betri samskipti svo þau nái að endurnýja neistann og blómstra á þessu æviskeiði.


Höfundur er hjúkrunar- og fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá GynaMEDICA. Hægt er að bóka tíma í pararáðgjöf hér: Sonja Bergmann hjúkrunar - og fjölskyldufræðingur


Heimildir:



2,876 views0 comments

Recent Posts

See All

Streita

bottom of page